Monday, March 06, 2006

Það nötraði allt og skalf

Ég verð að viðurkenna að ég varð ekki var við skjálftann í dag. Ég var sofandi, tók mér smá lúr í dag og svaf sem steinn á meðan þessar náttúruhamfarir riðu yfir. Tók ekki eftir neinu, frekar en Halldór Ásgrímsson, sem vissi ekkert hvað var í gangi þegar Magnús Þór Hafsteinsson krafði hann svara á Alþingi í dag um hvers vegna Ríkisútvarpið hafi brugðist skyldu sinni og ekki rofið dagskránna vegna þessa, sem síðar kom reyndar í ljós að það hafði gert. Halldór virkar reyndar stundum svo rólegur að maður fær á tilfinninguna að hann tæki varla eftir því þó hér færi að rigna eld og brennistein.

En þetta var nú heldur bitlaust útspil hjá Magnúsi Þór. Þessi blessaði skjálfti var ekki neitt neitt og fyrirspurnin á Alþingi gladdi helst fréttamenn NFS, því þeir rufu jú útsendingu til að fjalla um skjálftann. Kannski samt ofsögum sagt að þeir hafi rofið útsendingu, því útsendingar á NFS ganga jú út á að vera "on air" allan daginn og viðburðir eins og þessir hljóta einmitt að vera umfjöllunarefni slíkrar stöðvar. En hingað til hefur NFS og þetta nýja fréttakonsept, þ.e að vera með fréttir allan daginn, ekki verið sú bylting í fjölmiðlun hér á landi sem gefið var í skyn í upphafi. Þetta er miklu frekar eins og útvarpsstöð í beinni allan daginn og rétt eins og allar útvarpsstöðvarnar fjölluðu um skjálftann, sem og allir netmiðlarnir, þá fjallaði NFS um skjálftann mikla.

Það er þó alveg rétt hjá Magnúsi að gera verður kröfur til RÚV um að vera vel á verði í svona málum. Samt spurning hvort menn séu ekki einhverjum 30 árum á eftir sinni samtíð þegar þeir telja að forsætisráðherrann eigi að hringja niðureftir og skamma Páll Magnússon fyrir að hafa ekki rofið útsendingu. En ríkisframlögin miklu til RÚV eru jú allajafna réttlætt með þeim rökum að RÚV gegni öryggishlutverki, sem einkamiðlarnir geta ekki sinnt. Það virðist bara ekki hafa verið neitt tilefni til allra látanna í dag.