Monday, March 06, 2006

Netheimar

Hver ætli sé að dunda sér við að skanna inn og birta á blogginu sínu pósta Jónínu Ben og Styrmis? Ég hef nú ekki skoðað þetta sjálfur, en miðað við lýsingarnar hefur þetta útheimt þónokkra vinnu - ljóst að einhver hefur mikinn áhuga á að ná sér niður á Jónínu.

Maður veltir því líka fyrir sér þegar svona mál koma upp hvort þróunin næstu misserin verði ekki í þá átt að herða reglurnar og eftirlitið í netheimum. Í dag getur nánast hver sem er dreift hverju sem er á Netinu, þar með talið alls konar óhróðri um hinn og þennan. Persónuverndargúrúið Þórður Sveinsson spáði því í kvöldfréttum áðan að reglurnar um netið yrðu skoðaðar. Það yrði til bóta að því leyti að það gæti þrengt möguleika þeirra manna sem stunda nafnlausar niðurlægingar á netinu, þannig að sá sem fyrir verður getur ekki einu sinni svarað. En gallinn er sá að þegar á annað borð er búið að ákveða að einhver ummæli geti verið þess eðlis að þau eigi að fjarlægja af netinu er stutt í að stjórnvöld eða fyrirtæki fari að geta handvalið úr gagnrýnisraddir í sinn garð og látið eyða þeim út. En þetta verður fróðlegt að sjá...

Ég gerði mér annars lítið fyrir og gekk á Móskarðshnjúka um helgina. Það þótti mér nokkuð vel af sér vikið, miðað við að ég verð lafmóður við það að ganga í skólann á morgnana. Ég var ekki einn í för, heldur gekk ég með Magnúsi Norðdahl og hinum valinkunna andans manni, Önundi Pál. Þeir fóru þetta nú reyndar frekar létt upp, svona miðað við mig. Spekingarnir segja að í svona göngum gildi eitt lögmál: Fjallið ert þú.

Þannig að ég var frekar sáttur við þetta. Fór svo á árshátíð Morgunblaðsins um kvöldið og skemmti mér vel. Stúdentapólitíkusar gerðu mikla lukku í happdrættinu sem haldið var um kvöldið, því Anna Pála vann stærðarinnar prentara og næsti miði sem dreginn var upp úr pokanum var með mínu nafni á. Mogginn gætir jafnræðis og gætir þess vel að gera ekki neitt sem gæti skilist á þann veg að hann sé að taka afstöðu í pólitíkinni, þannig að án efa hafa komið skipanir að ofan um hvernig þetta ætti að fara. Ég vann allavega stafræna myndavél, en ég hef einmitt lengi staðið í þeirri meiningu að ég sé nánast eini Íslendingurinn sem eigi ekki slíkan grip. Enginn var þó jafnheppinn og hann Andri Karl sem vann ferð fyrir tvo til Spánar. Ekki slæmt fyrir mann sem er einhleypur og dundað sér við það frameftir kvöldi að velja sér förunaut.