Friday, March 10, 2006

Andstæðingar tjáningarfrelsins...?

Athyglisverð grein á vefritinu íhald.is þar sem fjallað er um kæru Samtakanna '78 á hendur Gunnar í Krossinum. Þeir íhaldsmenn spara ekki stóru orðin í garð Samtakanna fyrir að hafa kært Gunnar. Með því eru þeir orðnir andstæðingar tjáningarfrelsins og einir af þeim sem geta "engan veginn unað því að til séu aðrir sem hafa aðrar skoðanir en það sjálft á lífinu og tilverunni" og kæfa slíkar skoðanir í fæðingu með því að "viðhalda ótta meðal fólks um einhvers konar félagslega útskúfun, að það verði sett á svarta lista og eigi sér ekki aftur viðreisnar von," eins og það er orðað. Íhaldsmenn segja að þeim verði "óneitanlega hugsað til alræðisríkja síðustu aldar".

Það er ekkert annað. Með því að kæra skipuðu Samtökin sér bara á bekk með Stalín. Grein Gunnars í Krossinum var dæmigerð grein þar sem ráðist er að tilteknum hóp fólks. Í greininni hélt hann því meðal annars fram að samkynhneigðir væru fjöllyndir og endust að jafnaði stutt í samböndum, að börn samkynhneigðra yrðu samkynhneigð sjálf og svo framvegis.

Bara svo því sé haldið til haga þá er það einmitt eðlilegur þáttur í tjáningarfrelsinu að menn séu látnir sæta ábyrgð fyrir ummæli sín fyrir dómstólum. Það tengist því grundvallarviðhorfi að tjáningarfrelsinu fylgi ábyrgð. Kannski átta íhaldsmenn sig ekki á því að munurinn á einræðisríkjunum og okkur er sá að hér mega allir tjá sína skoðun. Engum er bannað fyrirfram að gera það en þeir sem tjá sig verða hins vegar að geta axlað ábyrgð orða sinna fyrir dómi. Geti þeir það ekki er kveðinn upp dómur í málinu, yfirleitt fjársekt. Engin skoðun er sum sé dæmd fyrirfram, heldur vegin og metin eftir á. Í alræðisríkjum er þessu einmitt öfugt farið. Þar má fólk ekki tjá sig til að byrja með. Af þessum sökum er einmitt ekki verið að vinna gegn tjáningarfrelsinu þótt samtök eða einstaklingar nýti sér rétt sinn til að kæra.

Gunnar þarf að svara fyrir sín ummæli fyrir dómi og sýna fram á að ekki hafi verið um fordóma að ræða. Íhaldsmenn taka nú ekki beina afstöðu í skrifum sínum til þess hvort svo sé, en ætla má af vörn þeirra að þeir telji ummæli Gunnars ekki þess eðlis að hann eigi að sæta refsingu. Þeir hljóta hins vegar að sætta sig við að dómstólar skeri úr um það, því ef Gunnar er að rægja heilan hóp manna á grundvelli fordómanna einna, er ekki réttlætanlegt að hann sæti ábyrgð fyrir það?
|

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta er af spjallinu á vef frjálshyggjufélagsins, Hallgeir skrifar:

"En samkynhneigðir verða að bíta í það súra epli að ef þeir vilja sjálfir hafa frelsi þegar kemur að lífsstíl, tjáningu og skoðunum að þá verða þeir að virða slíkan rétt hjá öðrum. Sama hvort skoðanir þeirra falli undir ríkjandi hugsun í samfélaginu eða ekki. Áður fyrr var það versti óvinur samkynhneigðra að þröngva slíkri rétthugsun yfir alla í gegnum landslög, það er sjálfselska og hræsni að breyta prinsipinu eingöngu vegna þess að maður sé kominn hinum megin við línuna. Ég er sjálfur samkynhneigður og lýt á þetta allt saman á léttum nótum"

http://spjall.frjalshyggja.is/viewtopic.php?t=188

5:08 AM  

Post a Comment

<< Home