Monday, March 13, 2006

Morgan Fitch Lynch...

Það líður vart sá dagur að ekki komi hér greinar frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum um íslensku bankana. Í dag er það Morgan Stanley, áður Merill Lynch, þar áður Fitch. Þó ég skilji nú ekki mikið í þessu, finnst mér það stórmerkilegt hvernig skýrslur mats- og greiningarfyrirtækjanna, sem eiga að vera almennar viðvaranir, virðast einmitt vera að valda því að hér fer af stað ákveðinn órói á markaðnum. Það hefur í raun ekkert breyst nema það að skýrslan hefur verið gefin út. Viðvörunin veldur skaðanum... eða hvað?

Eitt af því sem þessi fyrirtæki hafa bent á er hve mikið Íslendingar skulda og að það sé mikið áhyggjuefni. Sem er eflaust satt en þarf alls ekki að vera jafnneikvætt og það hljómar. Bjarni Ármannsson í Glitni (hræðilegt nafn by the way...) kom með athyglisverðan punkt í Kastljósinu í gær um að það yrði að líta á þetta í samhengi við að þjóðin er ung og ungt fólk hefur ákveðnar þarfir, það þarf að koma þaki yfir höfuðið, eiga bíl, húsgögn og svo framvegis. Fasteignamarkaðurinn í dag er orðinn þannig að það er ekki gerlegt að koma þaki yfir höfuðið án þess að skuldsetja sig.

Menn halda mjög á lofti hinu útjaskaða hugtaki „skuldir heimilanna“ og mála það mjög neikvæðu ljósi. Það gleymist oft að skuldir heimilanna eru einmitt fólk að koma þaki yfir höfuðið og koma sér af stað í lífinu.