Tuesday, March 14, 2006

Leiðindaþing

Hiti í mönnum á þingi. Ætli Guðjón Arnar fari að grípa til líkamlegra aðgera á Alþingi héðan í frá? Kannski hótar hann að berja menn eftir fund ef þeir kjósa ekki rétt og rukkar þá um nestispeninga milli funda?

Ég átta mig annars ekki á þessum látum í stjórnarandstöðunni út af vatnafrumvarpinu. Það hefur verið svona mottó hjá Ögmundi og “berjum-á-kapítalistunum-lifum-á-loftinu” genginu hér á landi og víðar að berjast gegn einkaeignarrétti á vatni. BSRB blés meira að segja til mikillar auglýsingarherferðar í fyrra út af þessu, enda er þetta víst lykilatriði í baráttunni gegn stórfyrirtækjunum og alþjóðavæðingunni og sameiginlegt baráttumál stéttarfélaga víðsvegar í veröldinni að berjast gegn einkaeignarrétti á vatni. Enda ætla stórfyrirtækin í heiminum ætla að nýta sér eymd fátæka fólksins og þörf fyrir vatn og mikil hætta á að svo fari líka hér á landi…

Nú er verið að reyna að mála þá mynd að með þessum blessuðu vatnalögum sé verið að gera eitthvað svipað – færa auðhyggjunni og kapítalistunum vatnið til að græða á, rétt eins og kvótann og allt annað. Sem er einmitt svo langt frá því sem er verið að tala um. Þetta er tiltölulega einfalt – spurningin snýst um það hvort vatn sem er á landareignum fylgi ekki landareigninni. Hingað til hafa landareigendur notið allra réttinda sem felast í eignarrétti og auðvitað ættu þeir að hafa eignarrétt að vatninu! Alveg fáranlegt að ríkið eigi ákveðna hluti á landareignum fólks. Alveg eins og gróður, tré, grjót, hæðir og börð á jörðum eru í eigu landareigandans, ætti vatn og vatnsréttindi að vera það líka. Landareigendur eru ekki að fara að setja upp gjaldmæla við vatnskranana hjá okkur þó þeir fái tryggðan eignarrétt að vatni á jörðinni sinni.

Eftir að Árni Magnússon hætti á Alþingi kom upp umræða um hvort stjórnmál væru nægjanlega aðlaðandi vettvangur fyrir ungt fólk. Þegar maður fylgist með málþófi dag eftir dag og að stjórnarandstaðan sé orðin svo fúl og önug að hún hrindi mönnum, kemur það ekki á óvart. Þetta eru tóm leiðindi!