Friday, August 25, 2006

Af stórglæstum sigrum mínum í Reykjavíkurmaraþoninu

Ég er enn þá að jafna mig eftir Reykjavíkurmaraþonið. Ég hafði það af að fara heilt hálfmaraþon og á ágætis tíma svona miðað við aldur og fyrri störf, 2 tímum og 6 mínútum. Það er gott miðað við að ég átti alveg eins von á að vera á svona 3-4 tímum.

En eins og við var að búast klikkaði ég á öllum praktísku atriðunum. T.d. hljóp ég í nýjum skóm. Ég storkaði þessu lögmáli og það fór fyrir mér eins og öllum sem storka lögmálunum - guðirnir refsa slíku fólki. Þeir refsuðu mér í þessu tilfelli með stærstu blöðrum sem sést hafa í Evrópu það sem af er árinu. Ég þurfti að stinga á þetta til að ná vökvanum út... magnið af vökva sem flæddi út hefði dugað lítilli herdeild í heilt ár.

Þetta var þó ekki allt. Maður hefði ekki grátið nokkrar blöðrur hefði allt hitt gengið að óskum. En því var ekki að heilsa. Mér tókst fyrir einhvern ótrúlegan misskilning að starta í hlaupinu með vitlausum hópi. Ég sem sagt startaði með maraþonhópnum, en ekki hálfmaraþonhópnum.

Hvernig tókst mér það, spyr eflaust einhver. Góð spurning. Hér er raunar um að ræða röð atvika sem leiða til misskilnings, frekar en eitt afmarkað atvik. Þetta hófst með mislestri á heimasíðu maraþonsins, ég mislas tímasetninguna á hlaupinu og hélt að það ætti að byrja klukkan níu en ekki tíu eins og rétt var.

En það hékk meira á spýtunni, því ég var seinn fyrir í hlaupið og í stað þess að vera mættur hálftíma fyrir til að teygja og spóka sig aðeins innan um hina hlauparana, eins og siður og venja ku víst vera, var ég svo seinn að ég kom bara eina mínútu í níu. Þá var verið að starta hlaupahóp og ég hélt auðvitað að ég væri á réttum stað. Það var meira að segja verið að spila "Frjáls eins og fuglinn" og ég auðvitað bara greip í mig stemninguna og söng með og hljóp af stað.

En annað kom á daginn. Á miðri leið áttaði ég mig á því, eftir að hafa heyrt einhverjar bandarískar konur tala ítrekað um að þær stefndu að því að ná því að hlaupa þetta á 4-5 tímum, að ég gæti ekki verið í réttum hópi. Það reyndist rétt athugað hjá mér, loksins. Ég var sem sagt maðurinn í vitlausu hlaupi. Getiði ímyndað ykkur eitthvað vandræðalegra? Maður hefði alveg eins getað verið nakinn þarna. Að vísu var ég kannski ekki í alveg bandbandvitlausum hóp, því hálfmaraþonið og maraþonið fara alveg sömu leiðina fyrstu 19 kílómetrana en samt frekar vitlausu því ég hafði ekki startað með hópnum mínum.

Til að gera langa sögu angistar og panikks stutta þá komst ég að því eftir mjög móð og andstutt samtöl við starfsmenn að það væri ekkert í þessu að gera og ég ætti bara að hlaupa áfram og klára. Sem ég og gerði og þar sem ég var með klukkutíma forskot á alla aðra hálfmaraþonhlaupara var auðvitað ekkert annað hægt að gera en að nýta tækifærið og hafa gaman af þessu. Ég kom auðvitað langfyrstur í mark í hálfmaraþoninu, sem getur ekki talist annað en stórglæsilegt í ljósi þess að maður var að taka þátt í sínu fyrsta maraþoni. Áhorfendur vissu samt ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessum manni, sem kom þarna skyndilega hlaupandi einn í mark. Annaðhvort var ég lélegasti 10 km hlaupari ársins eða þá að íslensku þjóðinni hafði fæðst ný vonarstjarna í langhlaupum, yfirnáttúrulegur hlaupagikkur, allt af því eþíópískur að líkamsburðum, sem hafði stungið alla keppinautana sína af með þvílíkum látum að annað eins hafi ekki sést í mörg ár. Menn voru í vafa...

Ég er annars að skella mér í kvöld á fimm ára reunion 1981-árgangsins úr MR. Er maður að verða gamall eða hvað?