Thursday, July 27, 2006

Meirihlutinn brattur

Nú eru að verða tveir mánuðir liðnir af valdatíð nýs meirihluta í borginni. Þótt mikill hluti tímans hafi farið í sumarfrí og rólegheit, er engu að síður ljóst að Sjálfstæðismenn hafa reynt að stimpla sig inn frá byrjun og sýna fram á að stjórn borgarinnar sé í styrkum höndum athafnamanna- og kvenna. Með því að fara strax í hreinsunarátak og stórfellda útrýmingu mávsins er verið að taka á málum sem áður voru í láginni. Sama með strætó.

Þá hefur Gísli Marteinn stigið fram af miklum þunga og síðustu vikur hefur hann ekki síður verið áberandi en Vilhjálmur eða Björn Ingi. Gísli hefur greinilega ekki lagt árar í bát þó hann hafi þurft að lúta í lægra haldi í prófkjörinu á sínum tíma og nýtur sín vel í umhverfisráði, sem er nokkuð góður vettvangur fyrir hann. Þetta er ekki stærsti málaflokkurinn en nýr og spennandi og margt hægt að gera. Það fer svo minna fyrir öðrum borgarfulltrúum meirihlutans. Hanna Birna, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífill og Jórunn Frímanns hafa t.d. enn sem komið er ekki komið mikið fram í fjölmiðlum eða verið áberandi í umræðunni.

Minnihlutinn er í hálfgerðu skötulíki. Mest hefur borið á Degi B. sem ætlar greinilega að halda uppi látlausri gagnrýni á erkióvini sína í Sjálfstæðisflokknum en bæði Steinunn Valdís og Stefán Jón eru greinilega uppteknari við önnur plön, hugsanlega undirbúning á þingframboði. Björk Vilhelmsdóttir hefur látið lítið fyrir sér fara. Sömu sögu er að segja um vinstri græna í borgarstjórn, þótt Árni Þór hafi látið finna aðeins fyrir sér í kringum strætómálið og Ólafur F. virðist enn vera að ná sér eftir að Villi Vill lét hann róa í viðræðunum frægu. En þetta er auðvitað rétt að byrja allt saman.