Monday, August 07, 2006

Hverjum þykir sinn fugl fagur

Að undanförnu hafa birst útreikningar þar sem sýnt er fram á hversu hagstætt það sé að taka húsnæðislán í Evrópu og að gífurlegur munur sé á heildarupphæðinni fyrir sama lánið á Íslandi og í Evrópu. Á vef Björgvins G. Sigurðssonar þingmanns Samfylkingarinnar eru birtir útreikningar sem sýna þetta og í frétt á NFS á dögunum var einnig fjallað um þetta.
Ýmsar ástæður eru fyrir þessu. Hér á landi erum við með verðtrygginguna, sem þýðir að langtímalán verða alltaf mun dýrari en á svæðum þar sem verðtrygging er ekki til staðar. Þar að auki eru vextir hér á landi töluvert hærri en í Evrópu. Þetta á bæði við um stýrivexti Seðlabankans, sem hafa að vísu ekki bein áhrif á húsnæðisvexti, og vexti á íbúðalán hjá bönkum og Íbúðalánasjóði.

En jafnvel þótt íbúðakaupendur í Evrópu séu vel settir miðað við okkur, mega menn ekki alveg gleyma sér af spenningi fyrir Evrópusambandinu. Ef vextir eru settir í stærra samhengi lýsa þeir auðvitað ákveðinni stöðu í efnahagsmálum. T.d. eru vextir hér á landi háir núna vegna þess að efnahagslífið er allt á fleygiferð og mikil þensla og þegar þannig háttar reyna yfirvöld að veita ákveðið mótvægi, t.d. með því að hafa háa vexti og reka aðhaldssama fjármálastefnu. Á svæðum þar sem efnahagslífið er í lægð eru vextir hins vegar lágir og hugsunin þar að baki er sú að reyna að koma hjólum hagkerfisins í gang aftur og hvetja til fjárfestinga og framkvæmda. Í eldri aðildarríkjum Evrópusambandsins eins og t.d. Þýskalandi og Frakklandi hefur undanfarin ár verið mikið atvinnuleysi og frekar lítill hagvöxtur, sem er andstætt við Ísland, þar sem atvinnuleysi hefur verið vart mælanlegt undanfarna mánuði og hagvöxtur nokkuð mikill.

Þó ég standi reyndar ekki í íbúðakaupum sjálfur, get ég vel ímyndað mér að það sé sárt að þurfa að greiða himinháa vexti. En varðandi samanburð við Evrópu verða menn að spyrja sig hvort efnahagsástandið í heild sinni þeir kjósa, hið evrópska eða hið íslenska.
|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Og hvort vilt þú? Hið íslenska eða það evrópska? :)

2:17 PM  
Blogger Árni said...

Augljóslega hið íslenska... Hélt að ég gæfi það laumulega í skyn í færslunni en ég er greinilega ekki jafngóður stílisti og ég hélt!

3:36 PM  

Post a Comment

<< Home