Wednesday, July 26, 2006

Stórafmæli og L.ung.A

Það er ekkert öðruvísi. Maður er bara orðinn 25 ára gamall. Hélt upp á það á þriðjudaginn með sérdeilis glæsilegum hætti, var fastur í vinnunni til klukkan átta um kvöldið.

Ég hafði þó tekið mest af fagnaðarlátunum út um helgina. Ég brá mér í höfuðstað Austurlands, Seyðisfjörð, um helgina og tók þátt í L.ung.A – listahátíð ungs fólks á Austurlandi. Ég lét það reyndar eiga sig að vera með atriði í ár, þótt það hafi verið freistandi að taka einn gjörning fyrir fólkið. Ég var í staðinn virkur þátttakandi og túristi á Seyðisfirði. Eyddi stórfé í sundlauginni, á kaffihúsinu og síðast en ekki síst á barnum.

Tónlistarframboðið var vægast sagt blandað. Á föstudagskvöldinu spilaði The Artist Formerly Known as Bibbi Curver – nú bara Curver í samkomuhúsinu á Seyðisfirði. Curverinn þeytti skífum af miklum móð og töfraði fram þvílíka elektrósýru að ég hafði aldrei heyrt annað eins. Reyndar tók hann nokkra slagara inn á milli eins og Higher State of Conciousness sem margir muna eflaust eftir, sérstaklega þeir sem stunduðu Kaffi Thomsen langt fram undir morgun þegar sá merki staður var og hét.

En á laugardeginum var hins vegar meiri meginstraumur í gangi. Todmobile stigu þar á svið og var það einmitt í annað skipti í sumar sem ég sé þau á tónleikum. Gamla grúppían. Við munum ganga inn kirkjugólfið - ekkert að því.

Ég skipulagði efnabúskapinn í líkamanum svo snilldarlega þessa helgina að ég tók út alla þynnkuna á laugardeginum og var því sokkferskur á sunnudeginum, sem var ekki verra þar sem níu tíma ferðalag í bæinn beið. Ég fór með miklum höfðingum, þeim Birni Patrick Swift og Þorgeiri Arnari Jónssyni, góðtemplara. Mér finnst oft ágætt að hafa þannig menn með í för til þess að heiðra málstað alnafna míns í Stykkishólmi.

Við þrír skemmtum okkur gríðarvel á leiðinni heim. Tókum gott stopp á Akureyri og snæddum einn matar- og kjötmesta hamborgara norðan heiða á veitingastað sem heitir Strikið. Hann ku víst vera með fínustu veitingastöðum höfuðstaðar Norðurlands, þannig að það má að segja að við höfum tónað stemninguna dáldið vel niður þegar við mættum þrír saman, tveir frekar illa lyktandi og lerkaðir eftir helgina en sá þriðji var reyndar vel þveginn og sjálfum sér til sóma.

Annars er gúrkan óðum að færast yfir núna í vinnunni. Það er gjörsamlega ekkert í fréttum og að ætla sér að ná tali af embættismanni í sumarleyfi er bara bjartsýni. Það sannaðist endanlega um daginn þegar ég var að reyna að hringja heim til viðmælanda en fékk ekki að tala við hann. Konan hans svaraði og sagði að maðurinn væri úti í garði og gæti ekki talað núna. Bleeeeesssaður!
|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Here are some links that I believe will be interested

9:45 PM  
Anonymous Anonymous said...

Nice idea with this site its better than most of the rubbish I come across.
»

9:28 PM  

Post a Comment

<< Home