Monday, August 07, 2006

Veiðimaðurinn

Ég veiddi maríufiskinn minn um helgina. Fór upp í Hvammsvík í Hvalfirði með þeim Sverri og Önundi og landaði þessu ferlíki. Kunni reyndar ekki að kasta á flugu en fékk skyndinámskeið á staðnum (þetta gengur víst allt út á 10-1 kastaðferðina) hjá strákunum. Eftir það var ekki aftur snúið. Þegar ég hafði kastað nokkrum sinnum beit hann á og einvígið hófst.

Fyrir þá sem hafa lesið Old Man and the Sea eftir Hemmingway, get ég sagt ykkur að sú bók kemst ekki í hálfkvisti við átökin sem ég lenti í við fiskinn. Oft var ég nærri því aðframkominn og ósjaldan á þessum tæplega þremur mínútum sem það tók mig að koma þessu flykki á land var ég við það að gefast upp. En eitthvað var það sem fékk mig til þess að bíta á jaxlinn og halda áfram og á endanum sá ég ekki eftir því. Þegar þessi tveggja punda regnbogasilungur lá á bakkanum og ég stóð sigri hrósandi yfir honum, sem eins konar tákngervingur afkomuhæfni mannsins í óbyggðunum, vissi ég að þetta var allt saman þess virði. Ég var orðinn veiðimaður.

Ég fór með hann heim og hugðist elda hann í matinn, til þess að mér liði eins og karlmanni. En það tókst að vísu ekki. Bæði var hann nú heldur rýr greyið en það spilaði líka inn í að ég kann eiginlega ekki að slægja fisk, enda er ég borgarbarn sem ólst upp við að spila tölvuleiki, lesa bækur og hanga á Netinu. Ég kann því eiginlega ekkert af því sem er íslenskt og þjóðlegt, eins og að slægja fisk, binda heybagga eða rata eftir áttum. Tilraunir mínar enduðu með miklu blóðbaði í eldhúsinu en pínulitlum flökum.

Maður deyr samt ekki ráðalaus. Ég hringdi í staðinn á pizzu með sjávarréttum og það var Pólverji sem kom með hana til mín. Svona er Ísland í dag.
|

5 Comments:

Blogger Dr. Sverrir said...

Já, það er misjafnt hvernig mönnum gekk að veiða um verslunarmannahelgina. En við vorum allavega í bullandi veiði þarna í Hvammsvíkinni.

4:16 AM  
Anonymous Anonymous said...

allir verða einu sinni að ná sér í eina maríu. eða allavega e-ð sem hefur maríuforskeyti.

2:04 AM  
Anonymous Anonymous said...

Þó þú sért borgarbarn hefurðu enga afsökun fyrir að hafa ekki notað oldfashion ljá til að slá garðinn þinn. Það er ekki eins og þú þurfir að kunna að dengja hann.

2:35 AM  
Blogger Árni said...

Já það var rétt María. Fyrst ég fékk þig ekki, fékk ég allavega fisk með þínu nafni. Það er kannski ekki alveg það sama, en þegar ég orðinn mjög ölvaður sé ég ekkert mikinn mun.

6:43 AM  
Blogger Árni said...

Jújú við erum jafnaldrar. Ég skal bara fara yfir þetta.

Fyrst voru það tölvuleikirnir. Maður eyddi mest öllum sínum tíma í Nintendo við að spila MegaMan 2, Super Mario og Duck Hunt. Segja má að sá tími hafi ekki að sama skapi farið í að læra að hnýta hnúta, kasta flugu eða slægja fisk.

Fljótlega þróaðist þetta út í Championship Manager 1, 2 og 3. Ég eyddi samtals mörgum mánuðum eða árum ævinnar í að stýra Liverpool með misjöfnum árangri. Aftur fór tíminn ekki í fluguhnýtingar, fjallgöngur eða sjómennsku.

Þegar ég var 14 ára tók Netið við. Í fyrstu átti maður hæga nettengingu sem færði manni helst upplýsingar um enska fótboltamenn. En þetta var bara byrjunin og breyttist allt þegar ég fór fyrst á Irkið. Þar eyddi ég mestum tímanum. Eignaðist meira að segja pennavinkonu frá Túrkmenistan og fór á mitt fyrsta deit á ævinni. Þó ekki við þá túrkmensku, heldur stelpu úr Garðabæ. Hún var feimin.

Af lestri þessa stutta æviágrips míns má sjá að ég hef fyrst og fremst lifað mig í gegnum tölvuna, ýmist sem andarveiðimaður, framkvæmdastjóri fótboltaliðs eða Irktöffari. Ekki amalegt veganesti fyrir lífið en allt þetta þjóðlega og holla sat fyrir vikið á hakanum.

5:39 PM  

Post a Comment

<< Home