Wednesday, August 16, 2006

Þjóðvegurinn

Þar sem ég átti nokkurra daga frí í vinnunni, sökum linnulausrar vinnuþrælkunar Blaðs allra landsmanna á mér í sumar, ákvað ég að bruna aðeins út fyrir bæinn og taka með tjald og bók og glíma við þjóðveginn, eins og Magnús Eiríksson orti einu sinni.

Þetta var stórfínt. Svona ferðir bjóða manni upp á að njóta útsýnisins yfir sveitir landsins frá bestu sjónarhorni sem hægt er að hugsa sér, bílrúðunni, svona milli þess sem maður horfir á veginn.

Annars hef ég orðið var við að menn skiptast nokkuð í tvo hópa gagnvart svona einmenningsferðalögum. Sumir sjá fegurðina við þetta, að ráða sér alveg sjálfur – svona vörubílstjóra-King of the road dæmi en aðrir fá stórkostlegar áhyggjur þegar þeir heyra af því að einhver ferðist einn síns liðs. Viðbrögðin hjá einum vini mínum við því að ég væri einn að flakka úti á landi voru t.d. þau að spyrja mig hvort ég væri í tilvistarkreppu.

- Nei, ég held að það sé allt í lagi með mig.
- Alveg viss?
- Já...

Ég kom út úr skápnum sem einmenningsferðalangur árið sem ég bjó úti í Þýskalandi. Það eru nokkur ár síðan og ég held að það sé óhætt að segja að mér líði miklu betur í dag eftir að ég ákvað að vera heiðarlegur við sjálfan mig og aðra. Ég skildi allt í einu fegurðina við það að flakka og þvælast einn án þess að vera utan í hóp af fólki allan tímann. Félagsskap má svo leita uppi þegar þörfin kemur í stað þess að dröslast með hann allan tímann.

Flakkið stóð að þessu sinni yfir í þrjá daga. Gekk meðal annars upp að Glym, sem ku vera hæsti foss landsins, þó ekki sé hann vatnsmikill blessaður. Það er dáldið gaman að labba upp að fossinum og sérstaklega að fara yfir Botnsánna en til þess þarf að fara yfir trjádrumb sem hefur verið lagður yfir ánna. Ég hafði það yfir með naumindum og fannst ég nokkuð góður. En á eftir mér fór yfir sama drumbinn hópur af pólskum innflytjendum, sem voru trúlega fjölskylda. Þar voru bæði kona á áttræðisaldri og tveir strákar sem voru ekki eldri en fimm ára og öll strollan fór yfir án þess að blikka auga. Samt töff hjá mér.

Stoppaði líka í Stykkishólmi. Það voru þó nokkur vonbrigði að rekast ekki á alnafna minn, Árna Helgason, fréttaritara Morgunblaðsins í Stykkishólmi og bindindisfrömuð, þó ég efist nú reyndar um að hann kæri sig mikið um að blanda geði við drykkfellda alnafna sína. Það verður að minnsta kosti að bíða betri tíma að við nafnarnir hittumst.

Ferðinni lauk svo í höfuðstað norðursins, Akureyri. Þar snæddi ég á Bautanum, sem sannir Akureyringar bera fram þannig að menn fá munnvatnið úr þeim í annað augað við framburðinn og svo á Greifanum, þar sem ég dró með mér í hádegismat verðandi sýslumann Akureyringa og stud.jur, Einar Ingimundarson, sem hefur einmitt flutt búferlum norður í land.

Akureyri hefur eitthvað skemmtilegt við sig. Þetta er svona landsbyggðarbær að því leyti að þarna er fallegt útsýni og svona ekki of stór, en hann hefur líka ákveðin element úr borginni, eins og miðbæ með einhverjum pöbbum og veitingastöðum.

Allt í allt var þetta hin besta ferð. Nú get ég haldið áfram að láta Málgagnið þræla mér út...