Friday, September 08, 2006

Endalok fátæktar?

Ég hef verið að lesa End of Poverty eftir Jeffrey Sachs, sem er hagfræðiprófessor og sérstakur ráðgjafi Kofi Annans. Ég er reyndar ekki kominn mjög langt með hana. Formálinn að bókinni er skrifaður af Bono! Mjög poppað.

Sachs fjallar í bókinni um hvernig fátækar þjóðir geta komist til bjargálna og hvernig sé unnt að eyða fátækt í heiminum fyrir árið 2025. Þar á hann að sjálfsögðu við hina sárustu fátækt, en ekki Vesturlandafátækt.

Það er margt athyglisvert í því sem Sachs skrifar. Kenningin hans er að vísu nokkuð almenn - hann vill auka fjárframlög verulega og nýta þau til að byggja upp þjóðfélögin þannig að þau verði sjálfbær. Hann lýsir þessu sjálfur þannig að hagfræðingar og aðrir sem fáist við fátækt verði að nálgast viðfangsefnið með sama hætti og þegar læknir sjúkdómsgreinir sjúkling - finna þá þætti sem valda vandræðum og gæta þess alltaf að velja ekki of þröngt sjónarhorn. T.d. gangi ekki að leysa efnahagsmál þjóðar með því einu að lækka skatta, heldur þurfi að horfa til miklu fleiri þátta, t.d. infrastrúktúrsins, hvernig gangi að berjast við sjúkdóma í landinu, hvort stjórnvöld séu spillt, hvernig menning í viðkomandi landi er, hvort tilteknum þjóðfélagshópum sé haldið niðri og svo framvegis og framvegis. Hann vill sem sagt að heildarmyndin sé skoðuð en ekki reynt að leysa málin með einföldum og afmörkuðum aðgerðum.

Sachs tekur ákveðna afstöðu til varnar því sem sumir kalla nútímaþrælavinnu og er oft tengt við hin svokölluðu sweat-shop. Þó aðstæðurnar þar séu vissulega lélegar segir Sachs að með því að vinna þar hafi starfsmennirnir oft tækifæri sem þeir fengju annars ekki, t.d. til að fá laun, búa í þéttbýli og ráða sér sjálfir.

Hann tekur dæmi af Bangladesh þar sem mikið af konum vinna í saumaverksmiðjum við að sauma merkjavöru sem er svo seld á Vesturlöndum (kannski bolina sem við kaupum í Sautján...) og segir að þó launin sem konurnar fái séu mjög lág, vinnudagurinn langur og aðstæðurnar lélegar væru þær verr settar annars. Hann vill meina að margar þessara kvenna byggju ella í sveitum landsins, þar sem feður þeirra ákveddu hverjum þær giftust og hvenær þær eignuðust börn og frelsið væri nánast ekkert. Með því að vinna hafi þær allavega frelsi til að ráða sínu einkalífi, þær geti komið sér upp eigin húsnæði og hugsanlega lagt eitthvað fyrir og tryggt þannig menntun barna sinna.

Kannski er þetta eins og reyna að sjá gimstein á ruslahaug. Sachs vill meina að þó aðstæðurnar á þessum vinnustöðum séu oft hræðilegar, sé ákveðin þróun í átt að betri lífskjörum hafin - þróun sem hefjist ekki ef þær eru fastar í sveitunum.
|

1 Comments:

Blogger Borgþór said...

ég er að hluta til sammála gaurnum, það virðist gegnum gangangi í sögunni ekkeert breytast í samfélaginu fyrr en fólk fluttist úr sveitinni og fór að vinna í þéttbýli við einhvern iðnað..

Eins með lýðræði.. (smá út af sproinu) ég tel að það sé ekki hægt að þröngva lýðræði upp á fólk, eins og usa dúddar vilja svo mikið! það tók mörg evrópulönd fleiri hundruð ár að þora berjast fyrir sínu lýðræði og yfirleitt var eitthvað sem leiddi til þess.

Takk farinn að sofa

4:34 AM  

Post a Comment

<< Home