Monday, September 04, 2006

Þjóðhyggjan

Á heimasíðu Björns Inga Hrafnssonar er nýleg færsla um hugtakið þjóðhyggju sem hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu. Þjóðhyggjan er ættuð frá Jóni Sigurðssyni, nýjum formanni Framsóknarflokksins og virðist vera ákveðið útspil til að sannfæra kjósendur um að flokkurinn hafi sjálfstæða hugmyndafræði og sé ekki bara bræðingur hægri og vinstri stefnu. Með þessu er auðvitað verið að reyna að svara þeim ásökunum að Framsókn sé hentistefnuflokkur sem elti hægri eða vinstri flokkana eins og hentar hverju sinni og hafi undanfarin 11 ár verið alger hækja Sjálfstæðisflokksins. Hvort það takist með hinu nýja hugtaki, ætla ég ekki að segja til um en það er í sjálfu sér alltaf jákvætt þegar menn eru að reyna að skilgreina sig og þróa hugmyndafræðina.

En þetta hugtak virðist reyndar vera Framsóknarmönnum sjálfum svo framandi að Björn Ingi, sem hefur verið hálfgerð samviska flokksins undanfarin misseri, bað Jón um að senda sér skilgreininguna á þjóðhyggju í tölvupósti, sem hann svo birtir á vefsíðu sinni.

Hinn nýi formaður er sem sagt með alveg splunkunýja skilgreiningu á flokknum, sem hann setti saman sjálfur og sendir mönnum í tölvupósti, ef óskað er eftir. Inn á vef Framsóknarflokksins má finna grundvallarstefnu flokksins og ýmsar stjórnmálaályktanir landsfunda flokksins, m.a. frá 2005 þar sem hvergi er minnst á þjóðhyggju, allavega sá ég það ekki í fljótu bragði.

Jón segir í tölvuskeytinu sínu að þjóðhyggja og þjóðræknisstefna merki í raun alveg hið sama og þjóðleg félagshyggja en Framsóknarmenn hafi jafnan notað það hugtak um meginstefnu sína og grunnviðhorf.

“Með þessari orðanotkun er lögð áhersla á þá sögulegu og hugmyndafræðilegu staðreynd að þjóðleg félagshyggja Framsóknarmanna er ekki byggð á sósíalisma eða stéttarhyggju heldur á rætur í sömu arfleifð og forsendum sem sjálfstæðisbaráttan og endurreisn íslenskrar menningar og samfélags. Þarna er jarðvegur og rætur Framsóknarstefnunnar í félagsmálahreyfingum og menningarstarfi, ungmennafélögum, samvinnufélögum, ræktunarsamtökum hvers konar og þjóðfrelsisstarfi. Þarna má líka sjá virk tengsl Framsóknarstefnunnar við samvinnustefnuna og ekki síður við þjóðlega frjálslyndisstefnu, en leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar kenndu sig við þá stefnu. Vel má sjá sams konar tengsl í sögu Venstre sem kallar sig "Danmarks Liberale Parti",” segir Jón.

Ég er því miður litlu nær. Hvað finnst þeim sem aðhyllist þjóðhyggju og á rætur í arfleifð og forsendum sjálfstæðisbaráttunnar og endurreisnar íslenskrar menningu um einkavæðingu, ofurlaun, skatta og virkjanir - svo tekin séu nokkur dæmi um umdeild mál? Mér finnst þjóðhyggjan ekki veita svör um stefnur, heldur er hún frekar útskýring á uppruna flokksins og sögu hans.

Menn hafa verið að grínast með að Jón Sigurðsson telji sig vera á æðra þekkingarstigi en aðrir menn. Það er nú kannski ósanngjarnt grín en kann að skýra skilningsleysi mitt og annarra á þessari skilgreiningu.