Friday, September 01, 2006

Kárahnjúkastífla

Þeir eru trúlega fáir sem átta sig almennilega á umræðunni um öryggismál við Kárahnjúkastíflu. Það er kannski ekki skrýtið, því sprenglærðir jarðvísindamenn virðast raunar ekki heldur alveg átta sig á þessu öllu. Að minnsta kosti virðist mikið skilja menn að og þá er kannski ólíklegt að almenningur átti sig á hvað felist í steyptri lónskápu, bergspennu og misgengjum.

Greinargerð og endurheimt málfrelsi Gríms Björnssonar hefur þyrlað upp umræðunni. Efnislega felur greinargerðin í sér að ekki hafi verið nægilega vel að undirbúningi staðið áður en farið var út í framkvæmdir. Í Morgunblaðinu í vikunni svöruðu verkfræðingar Landsvirkjunar þessum athugasemdum og gerðu það ágætlega. Raunar má hafa það bak við eyrað í þessari umræðu að trúlega hefur enginn aðili málsins jafnmikla hagsmuni af því að stíflan haldi, heldur en Landsvirkjun. Það yrði þvílíkur álitshnekkir fyrir fyrirtækið ef þetta risamannvirki mynda bresta með tilheyrandi afleiðingum. Það er því ekki óeðlilegt að reikna með því að verkfræðingarnir hafi farið nokkuð vel yfir þetta og mögulegar hættur samfara því að byggja á þessu svæði.

En Valgerður Sverrisdóttir hefur ekki komið vel út úr þessu máli. Henni hefur ekki tekist að útskýra hvers vegna hún leyfði ekki Alþingi og iðnaðarnefnd að sjá greinargerð Gríms. Það dugir ekki að segja að greinargerðin hafi ekki átt neitt erindi til þingmanna - það gerir eiginlega bara illt verra. Með því er Valgerður að gefa í skyn að stjórnsýslan og ráðherrar hafi vald um það hvað fari til þingmanna og hvað ekki, sem má auðvitað túlka á þann hátt að hún vilji stýra því hvaða upplýsingar þeir hafi. Svo hefur það ekki hjálpað að neita að koma í viðtöl við Steingrím Joð. Það er erfitt að túlka það öðruvísi en sem ótta - ef hún hefur hreinan skjöld, af hverju mætir hún ekki Steingrími og leyfir almenningi að dæma um hvor málstaðurinn sé sterkari?

Þetta mál er tækifæri sem Samfylkingin virðist sjá sem sinn björgunarbát í umhverfismálum. Samfylkingin kaus með málinu á sínum tíma, nánast öll sem ein, en áhrif umræðustjórnmálanna hafa gert það að verkum að þingmenn flokksins sjá eftir þessu öllu núna. Þetta er því hin fullkomna útgönguleið, að benda á að ráðherra hafi leynt upplýsingum um málið.

Þeir einu sem haggast ekkert eru VG og Sjálfstæðismenn. VG er alveg á móti þessu og Sjálfstæðismenn svona volgir með þessu, ekkert yfir sig hrifnir en standa með samstarfsflokknum. Þeir prísa sig samt eflaust sæla núna að þurfa ekki að svara fyrir faldar skýrslur og fleira í þeim dúr.