Saturday, September 09, 2006

Gengið til góðs milli sundlauga

Ég var búinn að skrá mig í þjóðarátak Rauða krossins og ætlaði mér að ganga til góðs í dag ásamt forseta vorum og 2.500 öðrum Íslendingum sem skráðu sig í verkefnið.

Þegar ég skráði mig á heimasíðunni var ég látinn velja skráningarstöð, sem voru í sundlaugum borgarinnar. Ég valdi að sjálfsögðu Vesturbæjarlaugina (international gay hot spot), enda styst að fara. Þangað mætti ég í dag en var reyndar í seinni kantinum, kom ekki fyrr en um klukkan fjögur til að bjarga heiminum. Er ekki annars alveg hægt að bjarga heiminum eftir kaffi?

Ég ætlaði mér allavega að koma sterkur inn í seinni bylgjuna í söfnuninni og kannski nurla saman nokkrum þúsundköllum fyrir gott málefni. En þegar ég kom var mér sagt að allar götur á svæði Vesturbæjarlaugar væru bara búnar og ekkert eftir handa mér. Ég gæti hins vegar farið út í sundlaug Seltjarnarness því þar væri eitthvað af götum eftir.

Ahh, hugsaði ég! Beverly Hills kapítalistarnir út á Seltjarnarnesi - gat verið að þeir nenntu ekki að leggja í púkkið. Gott - ég þangað. En þegar ég hafði gengið út á Nes og var búinn að gefa mig fram í afgreiðslunni, kom í ljós að þetta voru einhver mistök og það voru allar götur búnar á Nesinu líka. Seltirningarnir kannski ekki jafnsiðblindir og ég hélt...

En það var enn von, sagði konan frá Rauða krossinum við mig þar sem ég stóð og klóraði mér í kollinum í anddyri sundlaugarinnar. Það vantaði nefnilega fullt af fólki upp í Ingunnarskóla í Grafarholti því enn ætti eftir að ganga í margar götur þar!

Það var eitthvað kómískt við þetta. Langþreyttir íbúar Grafarholtsins hafa bara ekki tíma til að sinna þriðja heiminum. Kannski þarf engan að undra - annað hvert hús er enn í smíðum og örugglega fleiri byggingarkranar á svæðinu en blómapottar. Ef til vill ekki nema eðlilegt að menn hafi takmarkaðan tíma aflögu.

Ég reyndar sá mér því miður ekki fært að fara upp eftir þar sem ég var bíllaus. Ég gat því ekki gengið til góðs um nýbyggðar götur Grafarholtsins að þessu sinni. Kannski síðar.

En ætli það megi draga einhvern lærdóm af þessari frásögn? Til dæmis eitthvað á þá leið að íbúar hinna rótgrónu og settlegu hverfa borgarinnar gefi sér tíma til að taka þátt í svona verkefnum og að áhuginn þar sé svo mikill að búið sé að ganga í hvert hús upp úr kaffileytinu? Og þá kannski líka að úttaugaðir íbúar Grafarholtsins, sem nýta hverja lausa stund í að hræra steypu og slá upp mótum, hafi einfaldlega ekki tíma til að standa í því að brauðfæða börnin í Afríku?

Félagsfræðingar voru gerðir til að rannsaka þessa þróun. Það er ekkert flóknara.
|

6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þú gast s.s. ekki gengið til góðs, því þú varst ekki á bíl.

En kaldhæðnislegt.

2:18 PM  
Blogger d said...

Það hlaut að enda með því að einhver dytti niður á hlutverk félagsfræðinga í heimsskipaninni...

5:10 PM  
Blogger Árni said...

Já í bílaborginni Reykjavík er gengið til góðs á bíl. Ég spái því að innan fimm ára verði búið að skapa svigrúm í reglum Reykjavíkurmaraþonsins til að leyfa ökumönnum að taka þátt.

8:31 PM  
Anonymous Anonymous said...

Það er fáránlegt að ekki sé komið í byggingarreglugerðir að á hverju íbúðarhúsi þurfi að vera bílalúga. Slíkt auðveldar mjög alla heimsendingu og allar safnanir.

- ÖPR.

5:50 AM  
Blogger Árni said...

Eeeeee já!

Var hinn nýgifti Megg kominn á kreik upp úr átta, nýsturtaður og ferskur og farinn að banka upp á hjá fólki?

3:54 AM  
Blogger Kristín María Birgisdóttir said...

hahahaha - en fyndið. Við Davíð fórum líka í Vesturbæjarlaugina ooooog ALLT FULLT ÞAR - mættum ótrúlega vel búin, spennt að fara að ganga til góðs og fengum blauta tuskuna í andlitið - búið að fylla allt. En við fórum á Nesið með sömu pælingu og þú í huga og fengum jafnframt síðustu tvær göturnar!! Hefðum betur tekið eina.

7:30 AM  

Post a Comment

<< Home