Sunday, March 26, 2006

Samsteypur

Ég ætlaði að létta mér ritgerðarskrif í nótt með því að kíkja á Cheers. En viti menn, Skjár Einn fraus klukkan svona tvö og skjámyndin hefur ekki hreyfst í svona klukkutíma núna! Það er ekki einu sinni boðið upp á Afsakið hlé eða neitt. Myndin er bara frosin. Ætli tæknimaðurinn sé sofnaður?

Hef verið að velta fyrir mér þeim fjölmiðlasamsteypunum sem hafa orðið til á markaðnum í dag og slagnum þar á milli. Er það eðlilegt að í dag verði neytendur að velja hvort þeir vilji Símann & Skjáinn (þar með talið Enska boltann) eða OgVodafone og Digital Ísland? Í dag útilokar annað hitt. Ég get t.d. ekki fengið að sjá Enska boltann nema ég sé með nettengingu hjá Símanum. Markaðslögmálin eru jú margslungin. En er það ekki allra hagur, bæði neytenda og fyrirtækjanna, að val á internetfyrirtæki hafi ekki þær afleiðingar að sumir geti ekki séð enska boltann og aðrir ekki Idolið?

Ég man þá tíð þegar enski boltinn var sýndur á laugardögum á Rúv og svo á Stöð 2. Þá var að vísu einungis einn leikur á viku sýndur, sem þykir eflaust alger steinöld miðað við stöðuna í dag. En þetta var mikil stemning að hittast og horfa á leikinn og það gerðum við þrír vinirnir alveg reglulega í nokkra vetur. Man alltaf skemmtilega sögu þegar ég hugsa um þetta. Þannig var að stundum bauð Stöð 2 sparkunnendum upp á að hringja inn og velja mann leiksins og þá fór nafnið manns í pott sem dregið var úr. Einu sinni var nafnið mitt dregið úr pottinum, eftir að ég hafði kosið Stan Collymore mann leiksins, og sjálfur Arnar Björnsson tilkynnti landsmönnum að Árni Helgason hefði unnið kvöldverð fyrir 2 á Lækjabrekku!

Ég réð mér ekki fyrir kæti. Sá að vísu fram á að það yrði erfitt að velja úr vinahópnum hver ætti að fara með og hélt lengi vel að það yrði stærsta vandamálið. Að loknu erfiðu vali og tilheyrandi uppgjöri, fór ég að reyna að innheimta vinninginn minn frá Stöð 2. Þá kom upp nýtt vandamál og öllu stærra. Ég fékk vinninginn aldrei afhentan!

Þrátt fyrir ótal símtöl fékk ég yfirleitt svarið að "sá sem sér um þetta er ekki við núna" og jafnvel þegar ég hafði fengið sjálfa móður mína til að aka mér alla leið upp á Lyngháls og spurði eftir vinningnum í eigin persónu voru svörin þau sömu - hann er ekki við og þetta er því miður ekki tilbúið núna. Aldrei fékk ég vinninginn minn. Sýndi þessu máli nú lengi vel skilning, í ljósi erfiðrar rekstrarstöðu Stöðvar 2, en eftir að Baugur keypti þetta upp er aldrei að vita nema maður dusti rykið af þessari gömlu skuld. Og þó...
|

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hvílíkar hrakfarir.

7:51 AM  
Blogger Árni said...

Ég er að átta mig betur og betur á því eftir því sem ég les þetta aftur, hvað þetta var lélegt.

7:54 AM  
Blogger Einar Gislason said...

Þetta er alveg hrikalegt

8:22 AM  
Blogger Borgþór said...

Þetta er svakalegt.. talaðu við stjórnarandstöðuna kannski þeir taki þetta upp á þingi...

Annars geturu fengið enska boltan þó þú sért með vodafone tengingu.. það kostar bara mikið bras, vesen og pening!

11:46 AM  
Blogger Árni said...

Jújú. Það er víst hægt að fara ýmsar krókaleiðir, eins og t.d. þeir geta sem eru með ljósleiðara. En það er svoldið fyndið að á tímum ótakmarkaðs framboðs á öllum sköpuðum hlutum þá sé þetta eitthvað sem er útilokað...

4:26 PM  

Post a Comment

<< Home