Wednesday, March 22, 2006

Írakstríðið

Ég hef verið einn þeirra (að ég held fáu) sem hefur ekki myndað sér algjörlega einhlíta skoðun á Íraksstríðinu. Mér hefur þótt ýmislegt mæla með því og ýmislegt á móti og leyft mér þau þægindi að taka ekki eindregna afstöðu sem ég held mér við, sama hvað á gengur.

Fyrir það fyrsta var Saddam Hussein einræðisherra, sem hafði dauða sinna eigin borgara á samviskunni. Samningar, viðræður og alþjóðlegar stofnanaaðgerðir eins og viðskiptabann og fleira höfðu engum árangri skilað. Það eru ákaflega veik rök og hreinleg barnaleg að tala um að hefði átt að reyna samræður og samninga lengur - þessi maður ætlaði sér ekki að semja!

Í öðru lagi er ljóst, hvað sem líður öllum vafasömum aðferðum við að tengja Saddam við hryðjuverkasamtök, að hann var ólíkindatól og hættulegur. Það má kannski setja dæmið upp þannig að þó hann hafi ekki átt gjöreyðingarvopnin, þá hefði hann líklega ekki hikað við að nota þau, ef hann kæmist yfir þau. Við sem fylgjumst með, svona á hliðarlínunni hinum megin í heiminum, getum leyft okkur að vera vitur eftir á og gagnrýna. Það hefðum við sennilega líka gert ef til þess hefði komið að Saddam reyndi að ráðast á Bandaríkin eða Ísrael. Þá hefðum við hefðum gagnrýnt aðgerðarleysi Bandaríkjamanna.

Þá er það, í þriðja lagi, göfugt markmið að breiða út lýðræði á þessu svæði og eitthvað sem gæti leyst þennan vanda þessara ríkja til langframa.

Það hefur hins vegar ýmislegt komið fram sem heldur ekki vatni:
Í fyrsta lagi átti Saddam ekki gjöreyðingarvopn. Það hefur verið sýnt fram á að upplýsingar þar að lútandi stóðust ekki og sömu sögu er að segja um tilraunir hans til að koma sér upp slíkum vopnum. Í öðru lagi var hann ekki að þjálfa upp hryðjuverkamenn á vegum al-Qaeda, eða í það minnsta er ekkert sem bendir til þess.

Og það er ýmislegt sem mælir hreinlega gegn innrásinni:

Fyrir það fyrsta er það alltof þröngt sjónarhorn að líta eingöngu til þess að Saddam hafi verið grimmur einræðisherra. Það eitt réttlætir ekki innrás að einhver sé grimmur. Stuðningsmenn stríðsins spyrja stundum hvort andstæðingar þess hafi frekar viljað hafa Saddam áfram? Sumir kynnu að segja að slík spurning sé ekki réttlætanlegt og að „maður megi alveg gagnrýna þó maður vilji ekki Saddam“ en mér finnst töluverð vigt í þessari spurningu. En engu að síður má ekki líta svo á að það sé eina atriði málsins. Það verður að skoða þetta í samhengi við atburðarrásina sem fylgdi. Upplausn hefur verið í Írak undanfarin ár, daglega eru þar sprengingar og mannfall saklausra borgara. Í dag virðist staðan vera í sjálfheldu, vera bandaríska hersins veldur miklum vanda því hann er óvinsæll á svæðinu en samt gæti hann varla leyft sér að fara í flýti, því þá myndi landið sennilega leysast upp í borgarastyrjöld.

Í öðru lagi brutu Bandaríkin alþjóðalög með innrásinni. Nú eru alþjóðalög að vísu ekki heilagur sannleikur, heldur „tilraun til að koma reglu á flókinn veruleika“ eins og einn góður maður sagði mér um daginn. En engu að síður eru þau lög og það grefur undan gildi þeirra að virða þau ekki.

Í þriðja lagi hefur það orðið æ skýrara að útbreiðsla lýðræðis – jafngöfugt markmið og það er – er ekki jafnmikil skyndilausn og menn hefðu haldið, eins og bent er á í stórgóðum pistli á Deiglunni. Kenningin um að lýðræðisríki fari ekki í stríð hvort við annað er fræg og mikið er á henni byggt. Hún er hins vegar enginn allsherjarsannleikur. Til dæmis færu Danir og Norðmenn mjög ólíklega í stríð. Ástæður þess eru hins vegar tengdar svo mörgu mörgu öðru en því einu að til staðar sé lýðræði í þessum löndum. Ástæður þess tengjast sameiginlegum gildum, trú, menningu og stöðugleika í viðkomandi ríki.

Það má með sömu rökum útfæra kenningar um ýmislegt sem lýðræðisríki „gera ekki“. En það byggir ekki á því einu að þar sé lýðræði, heldur á allt öðru.

Í fjórða lagi má aldrei líta framhjá því að innrásin í Írak hafði í för með sér dauða margra Íraka – þar á meðal saklausra borgara í Írak. Það er kaldhæðnislegt hve líf Írakans er lítilvægt í huga Repúblikans miðað við umræðuna um fóstureyðingar, sem má undir hér um bil engum kringumstæðum stunda.

Sú stefna sem Bandaríkjamenn – „framverðir lýðræðis“ – hafa tekið hefur m.a. leitt til Guantanamo Bay fangabúðanna og pyntinganna í Abu Ghraib fangelsinu.

Í fimmta lagi ríkir núna alger óvissa varðandi framhaldið í Írak. Bandaríkjaher getur ekki verið þar til eilífðar. Það er pólitískt erfitt og alltof útgjaldafrekt. Hann verður því að fara fyrr eða síðar og það er allt óvíst með hvort íraska lögreglan ræður við stöðuna þá.

Það er í stuttu máli ýmislegt sem, einangrað séð, fól í sér breytingu til batnaðar við Íraksstríðið. Á móti kemur að mörg mannslíf féllu og sumt af hegðun Bandaríkjamanna hefur vakið óhug meðal heimsbyggðarinnar. Ástandið í Írak hefur farið frá því að vera einræði yfir í upplausn og óreiðu sem ekki sér fyrir endann á.

|

3 Comments:

Blogger Borgþór said...

Ted Turner kom með athyglisverða nálgun á þetta hjá Jay Leno..
Þú þröngvar ekki lýðræði upp á þjóð.. flest ríki sem hafa lýðræði í dag þurftu að berjast fyrir því.. mismikil barátta fór fram.. t.d var ekki beint blóðug barátta Íslendinga að ná okkar göfuga markmiði.. en engu að síður baráttu þegnanna!

3:34 AM  
Anonymous Anonymous said...

Svo er fréttaflutningurinn líka alltaf skemmtilegur. Maður er orðinn svo dofinn yfir þessum Íraksfréttum. Það var um daginn í gangi einhver stærsta hernaðaraðgerð í Írak síðan innrásin sjálf var framkvæmd. Loftárásir og skriðdrekaherdeildir. Það var held ég ein frétt um þetta. Ekki hef ég heyrt neitt meira um þetta, t.d. ekki um mannfall. Svo eru blöðin alltaf að segja að EF þetta og hitt ÞÁ gæti brotist út borgarastyrjöld í landinu. Er ekki borgarastyrjöld í landinu? Nú spyr sá sem ekki veit...

Önundr.

5:54 AM  
Blogger Árni said...

Mjög sammála með þessa deyfð. Það er allt rauðglóandi út af þessum 4 þotum hér heima á Íslandi, en nánast enginn hefur áhyggjur af því að það sé verið að bomba Írakana.

7:23 AM  

Post a Comment

<< Home