Friday, March 24, 2006

Vertíð hjá blaðalesendum

Það er kraftur í íslenskum dagblöðum um þessar mundir. Nú eru gefin út fjögur dagblöð og þau eru öflug, hvert á sinn hátt. Mér finnst orðið allt annað að lesa leiðara Fréttablaðsins eftir að Þorsteinn Pálsson tók við ritstjórastöðunni. Einhverjir héldu kannski að allur vindur væri úr honum eftir mörg ár á sendiherrastóli en hann er frábær penni og óhræddur við að beina spjótum sínum að gömlum samherjum jafnt sem andstæðingum.

DV hefur batnað mjög frá því að nýir ritstjórar tóku við blaðinu. Efnistökin eru þau sömu - meginuppistaðan í blaðinu eru ýmsir afkimar samfélagsins sem fá litla athygli annars staðar; kynferðisafbrotamenn, öryrkjar og undirheimarnir svo eitthvað sé nefnt. Umfjöllun um þessi mál á rétt á sér en hún er vandmeðfarin og það er þunn lína milli þess að gera þetta vel eða ganga of langt. Oft snýst það um ákveðin útfærsluatriði, til dæmis það eitt að birta ekki mynd og nafn sakborninganna á forsíðu blaðsins heldur láta nægja að gera það inn í blaðinu. Skrípaleikurinn sem var í gangi undir stjórn Mikaels Torfasonar hafði fyrir löngu gengið fram af fólki en Björgvin og Páll hafa stýrt blaðinu af meiri skynsemi.

Blaðið hefur verið að styrkja sig að undanförnu en glímir kannski við þann vanda að það skortir sérstöðu miðað við hin blöðin. Það var blaðinu án efa til framdráttar að fá Ásgeir Sverrisson sem ritstjóra. Það er örugglega ekki auðvelt að koma blaði í gegnum fyrstu mánuðina og fyrsta árið en smám saman mun það án efa ná að skjóta rótum.

Og svo er það auðvitað Mogginn, sem er jú vinnustaður minn og því telst ég sennilega ekki ná hinu fræga hlutleysi í því sem hér á eftir fer. En blað allra landsmanna hefur, að mínu mati, farið mikinn undanfarnar vikur og gaman að fylgjast með því hvað Mogginn getur verið sterkur þegar vel stendur á. Það hefur t.d. fundist varðandi umfjöllun blaðsins um íslenskst efnahagslíf og bankana. Mogginn er með mikla breidd og mikinn styrk í starfsliði sínu og ég hef stundum fengið það á tilfinninguna að þessi styrkur nýtist ekki alltaf til fulls, sérstaklega þegar lítið er í fréttum og viðfangsefnin einföld og auðleysanleg. Það hefur hins vegar ekki verið málið undanfarnar vikur.

En eins og ég sagði þá er gaman að lesa blöðin um þessa dagana, sérstaklega þegar maður hefur í huga að það er ekki sjálfgefið að fjögur öflug blöð séu gefin út á litlum markaði eins og hér heima.