Friday, March 17, 2006

Wag the Dog og svartur miðvikudagur...

Var að ræða við einn fróðan mann í gær, sem kom með þá skemmtilegu kenningu að atburðir 15. mars (svarta miðvikudagsins, eins og einhverjir vilja meina að hann hafi verið fyrir Sjálfstæðismenn) hafi verið svona "Wag the Dog" sena - þ.e. að tímasetning frétta af brotthvarfi varnarliðsins hafi ekki verið tilviljunin ein heldur hafi fréttunum verið sérstaklega komið fyrir rétt á eftir fréttum af niðurstöðu Baugsmálsins til að dreifa athyglinni. Pælingin um að fyrst tveir skellir væru á leiðinni, væri betra að þeir kæmu sama daginn og fjölmiðlarnir gætu ekki smjattað á þeim jafnlengi. Maður skal samt ekki segja með sannleiksgildið en samsæriskenningar eru alltaf skemmtilegar.

Framhald Baugsmálsins lítur í fljótu bragði ekki mjög vel út fyrir ákæruvaldið. Jón Gerald dæmdur ótrúverðugt vitni, þar sem hann ber "þungan hug" til Jóns Ásgeirs og Ivan Motta, bílasalinn sömuleiðis dæmdur úr leik m.a. vegna þess að hann hafði umgengist Jón Gerald of mikið! Svo er líka athyglisverð niðurstaðan með lánveitingar til Baugsmannanna, að peningafærslur inn á viðskiptareikninga stjórnarmanna og fjárfestingarfélaga teljist ekki lán í skilningi ársreikningalaganna. Maður hefði einmitt haldið að það væru þess háttar færslur sem æskilegt væri að kæmu fram í ársreikningum, sem eru jú nokkurs konar yfirlitsplagg um stöðu mála í hverju fyrirtæki. En á móti kemur að lögin eru ekki alltaf eins og fólki finnst "æskilegast" að þau eigi að vera, heldur eru þau eins og Alþingi ákveður og í þessu tilviki vantaði upp á að þetta væri nægilega skýrt, að mati dómsins.

Björgvin Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar á heimasíðu sína um títtnefndan miðvikudag og nefnir hann einmitt svarta miðvikudaginn. Telur hann þrennt til, Baug, herinn og að vatnsslagurinn hafi tapast. Það er fróðlegt að stjórnarandstaðan líti svo á að hann hafi tapast af hálfu stjórnarinnar, lögin voru jú samþykkt, með þeim breytingum helstum að þau taka gildi eftir kosningar 2007 í stað þess að taka gildi strax. Vef-Þjóðviljinn spyr réttilega hvað hafi verið í gangi með þessum samningi við stjórnarandstöðuna, sem ætti ef hún kæmist til valda eftir kosningarnar að ári ekki að geta breytt lögunum mikið miðað við eigin aðferðir, þar sem stjórnarandstaðan ætti þá að geta einokað ræðustólinn og þvingað fram samkomulag um hitt og þetta.

Það brennur stundum við ákveðinn útúrsnúningur á lýðræðishugtakinu hér á landi, eins og örlaði á í umræðunum um vatnalögin. Maður heyrir það stundum, t.d. þegar sumir andstæðingar virkjunarinnar á Kárahnjúkum tala um þá baráttu alla að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi verið mjög ólýðræðisleg. Við megum ekki gleyma því að lýðræðið í okkar þjóðfélagi felur í sér að réttilega kjörinn meirihluti taki ákvarðanir og að minnihlutinn geri það ekki. Lýðræðisbarátta liðanna alda gekk einmitt út á þetta - að réttkjörinn meirihluti þjóðarinnar fengi ákvörðunarvald en ekki fámennur hópur sem hafði alla þræði í hendi sér. Vissulega má halda því fram að taka eigi tillit til sjónarmiða hinna, að reyna eigi að miðla málum og svo framvegis en við megum ekki gleyma því að samkvæmt stjórnskipun landsins er þetta hin endanlega ákvörðun og það þýðir ekki að segja hana ólýðræðislega bara af þeirri ástæðu einni að viðkomandi er ekki sammála henni.

Er annars á leið á árshátíð hjá Vökunni góðu á morgun - það verður án efa mikið fjör.
|

6 Comments:

Blogger Nonninn said...

Eina sem ég bíð eftir í þessu Baugsmáli er að einhver af þessum herrum taki ábyrgð á þessum skrípaleik og segi af sér. Kannski er það eitthvað sem er ekki á dagskrá hjá þessum herrum því fyrir mér líta þeir á okkur almúgan sem einhverja dyramottu sem má nota að vild, sem má henda ef hún þykir ekki þjóna réttum tilgangi !

9:14 AM  
Anonymous Anonymous said...

Lýðræði felur líka í sér að allir geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Ef svo er ekki að þá fær fólk ekki að kynnast eins mörgum valkostum.

Frelsið til að kjósa verður hins vegar viðameira ef valkostirnir eru fleiri.

2:10 AM  
Anonymous Anonymous said...

Er eitthvað blogg-slappelsi í gangi Árni?

8:29 AM  
Blogger Borgþór said...

Alls ekki nógu duglegur penni..
Hræddur um að einhverjir myndu reka svona slappan penna.. hummm

4:40 PM  
Blogger Árni said...

Alveg róleg. Massív langloka um Írak komin

8:32 PM  
Blogger Árni said...

Maggi: ég er alveg sammála því, en á einhverjum punkti verður að nást niðurstaða í málið og þá er lýðræðisleg kosning besta leiðin

8:34 PM  

Post a Comment

<< Home