Saturday, March 25, 2006

Sætar stelpur og gagn sem má af þeim hafa

Ummæli utanríkisráðherra um sætustu stelpuna og sama gagnið hafa farið í taugarnar á sumum. Er formaður Flokksins að halda því fram að konur geti einungis verið sætar en ekki haft aðra kosti eins og til dæmis að vera gáfaðar? Kannski.

En ef við köfum dýpra í þetta mál mætti ekki á móti spyrja: Er ráðherrann ekki frekar að lýsa þeim blákalda veruleika að það bara er ekki alltaf hægt að fara heim með sætustu stelpunni? Um það er ekki deilt. Við þekkjum þetta allir. Þannig má segja að ráðherrann sé að setja sig á ákveðið level með okkur hinum – hann, eins og allir aðrir íslenskir karlmenn, þekkir hvernig það er að fara ekki með sætustu stelpunni heim, þetta nauðsynlega þroskaskref í lífi hvers ungs manns. Ekkert kynnir mann betur fyrir eigin takmörkunum en höfnunin.

En til að halda öllu til haga má bæta við að Geir er ekki endilega að halda því fram að stelpur geti bara verið sætar. Sætasta stelpan hverju sinni er jú ekki til nema í huga hvers og eins.

Hugsanlega kyngerir Geir málið um of. Að jafna vali Íslendinga á bandamanni í hinum flóknu varnarmálum landsins við tilraun drengs til að ná sér í stelpu til að fara heim með eftir ball er auðvitað viss karllægni. En manninum er vorkunn – ekki hefðum við viljað að hann líkti þessu við að fara ekki heim með sætasta stráknum? Þá hefði nú eitthvað heyrst…!

Seinni hluti ummælanna orkar hins vegar meira tvímælis. Einhver sem gerir sama gagn. Þarna eru vísanirnar svo margar að maður veit varla hvar á að byrja. Manni dettur auðvitað fyrst í hug að það stefni bara í eitt. Eitthvað dónó. Það er samt vissara í ljósi þess hvað erótískar lýsingar fara hratt um Internetið í dag að ræða það ekki frekar. En ef það er þetta sem Geir átti við, lítur út fyrir að hann telji konur bara geta gert eitt – og það er dónó eftir ball.

Hér megum við samt ekki álykta um of. Hver segir að fólk geti ekki farið saman heim eftir ball í öðrum tilgangi? Er það til dæmis alveg útilokað að fólk geti farið heim til að spjalla eða fá sér eitthvað að borða saman? Mér virðist sem hinir norðlensku feministar hugsi bara um eitt, fyrst þeim þykir það svona grunsamlegt að stelpa og strákur fari saman heim eftir ball. Kannski þekkjast engin millistig þarna fyrir norðan!

Ég man eftir því að í menntó sást sjaldnast vín á sætustu stelpunum – þær voru of miklar skvísur til að láta sjá sig ofurölvi. Fyrir vikið voru þær á bíl og kannski var Geir að vísa til þess með því að minnast á gagnið – að finna einhverja sem var á bíl og gæti skutlað honum heim. Þetta er minni sem margir drengir kannast við – að hafa fengið sér ívið of hressilega neðan í því og leita uppi unga stúlku sem skutlaði manni heim. Klappaði manni kannski líka vinalega á bakið og kom við á BSÍ í leiðinni. Og ekki gengur að láta einhvern strák skutla sér heim: það hefur aldrei verið fullkomlega í lagi með þá drengi sem eru edrú á böllum.

Við skulum því fara varlega í að draga ályktanir af ummælum ráðherrans. Þrátt fyrir hrossahláturinn sem kaldastríðshaukarnir í salnum í Valhöll ráku upp, hallast ég frekar að því að þarna hafi ráðherrann tekist á hendur að lýsa hinum flókna veruleika íslenskrar ballmenningar og kvennafars. Sem er ekki létt verk.

|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Já, aldrei að treysta bindindismanni. Þeir hafa eitthvað að fela þessir andskotar.

ÖPR

2:43 AM  
Blogger Unknown said...

Þetta er frekar tæpt hjá þér. Borða eða spjalla... haaa...

7:33 AM  

Post a Comment

<< Home