Saturday, April 29, 2006

Borgarstjórnarkosningar

Kosningabaráttan fyrir borgarstjórnarkosningarnar einkennist af fortíðarflótta. Það er eins og núverandi meirihluti í borginni hafi ákveðið að pakka saman og grafa allt sem minnir á R-listann.
Enginn burðarás úr R-listanum er í forystusæti hjá þessum flokkum og sumir þeirra tala einhvern veginn eins og þeir hafi verið í minnihluta í mörg ár. Björn Ingi segir að það hafi verið nóg talað, nú sé kominn tími til framkvæmda. Hefur Framsóknarmaðurinn Alfreð ekki verið lykilmaður í borgarstjórn í mörg ár? Var hann sem sagt ekki að framkvæma? Þetta gengur nú svo langt hjá Framsókn að nafnið sjálft þykir ekki boðlegt lengur.

Svandís Svavarsdóttir segir að aðgengismálin, í víðum skilningi, skipti mestu. Hefur Árni Þór ekki haft tækifæri til að gera gangskör í aðgengismálunum þegar hann sat í meirihluta? Það er helst að Dagur B. leyfi sér að minnast á það sem gert hafi verið af hálfu R-listans en hann hefur svo sem ekki verið lengi á sviðinu og þarf sem formaður Skipulagsráðs t.d. að bera ábyrgð á “Hringbrautarklúðrinu”.

Svo er auðvitað bullandi verðbólga í loforðunum. Framsóknarmenn eru þar hvað sprettharðastir, það er ekki nóg að ætla að fara í rándýra framkvæmd á Lönguskerjum heldur á að senda frístundatékka heim til borgarbúa. Þetta hljómar allt saman vel, en það er ekki laust við að manni svelgist á kaffinu, eins og einn orðaði það, þegar maður veltir kostnaðinum fyrir sér.

Sjálfstæðismenn sigla frekar lygnan sjó og það virðist hafa gefist vel hjá þeim. Þótt Vilhjálmur sé ekki með æskusjarmann og flottu orðin virðast flestir vera að kaupa hann sem borgarstjóraefni. Frjálslyndir eru svoldið óskrifað blað í baráttunni. Borgarstjórnarflokkurinn er vel mannaður en þeir reka alveg grimman pópúlisma – það er leitun að málefni sem Ólafur F. segist ekki styðja heilshugar sem eitt af “aðaláherslumálum flokksins”.

Frambjóðendurnir mættust í Kastljósinu um daginn. Því hefur verið haldið fram, m.a. í Staksteinum, að Björn Ingi hafi komið best út úr þeim umræðum og það er ýmislegt til í því. Ólafur F. sló algert vindhögg þegar hann sakaði Björn Inga ítrekað um lygar þegar hann benti réttilega á fréttatilkynningu sem Frjálslyndir sendu frá sér um flugvöll á Lönguskerjum. Björn Ingi nær einhvern veginn, þrátt fyrir allt, að vera sá maður sem talar af hvað mestri bjartsýni og krafti. Hann er auk þess tanaðasti frambjóðandinn.

Mér fannst Dagur ekki koma vel út þegar hann hreytti því í Vilhjálm að hann hefði barist gegn leikskólum alla sína tíð í borgarstjórn. Það er eins og það pirri Samfylkinguna og Dag alveg óstjórnlega að Sjálfstæðisflokkurinn sé að stíga fram og segjast ætla að beita sér í málefnum aldraðra eða málefnum leikskólanna. Kannski fer það í taugarnar á þeim að fólk virðist kaupa félagshyggjuáherslur Vilhjálms en Samfylkingin þarf að venjast þeirri vígstöðu að Björn Bjarnason er ekki andlit Sjálfstæðisflokksins í þessum kosningum.

Svandís Svavarsdóttir kemur vel fyrir og það er ferskur blær um hana. Hún samt á það til að vera mjög á almennu nótunum, talar um samfélag og aðgengi og Vinstri grænir halda framboðsfundi í Strætó, fyrirtækinu sem þeir hafa verið með stjórnarformennsku í en gert svo lítið fyrir. Það er út af fyrir sig jákvætt að vera á almennu nótunum en það kann að koma eitthvað niður á trúverðugleikanum. Kjósendur vilja líka heyra kerfiskallarausið við og við, prósentutölur um holræsaskatt og tengigjöld.

Fylgið virðist vera nokkuð stöðugt á flokkunum um þessar mundir. Sjálfstæðisflokkurinn verður stærstur en það er tvísýnt hvort það dugi til átta borgarfulltrúa. Trúlega mun þetta ráðast á litlu flokkunum, ef þeir ná allir inn manni, er meirihluti Sjálfstæðismanna úr sögunni. Meirihlutaviðræðurnar sem myndu hefjast í kjölfarið væru hins vegar afar áhugaverðar og spurning hvert Björn Ingi snúi sér og hvort honum stætt á að snúa baki við Sjálfstæðismönnum verandi nánasti samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar í pólitík.

Þetta er allt í járnum!
|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ég verð nú að vera ósammála þessu hérna hjá þér:

"Það er eins og núverandi meirihluti í borginni hafi ákveðið að pakka saman og grafa allt sem minnir á R-listann.
Enginn burðarás úr R-listanum er í forystusæti hjá þessum flokkum og sumir þeirra tala einhvern veginn eins og þeir hafi verið í minnihluta í mörg ár."

Ég sé ekki betur en að Samfylkingin bjóði fram einhvers konar minniútgáfu af R-listanum. Fjögur efstu sætin þeirra hafa öll verið áberandi í störfum R-listans síðasta kjörtímabilið og sum mun lengur. Ef þetta er feluleikur af hálfu Samfylkingarinnar þá er hann ekkert voðalega vel heppnaður.

Strumpakveðjur :)

10:20 AM  
Blogger Árni said...

Já eins og ég sagði þá á þetta kannski síst við um Samfylkinguna og Dag. Engu að síður var borgarstjóra R-listans ýtt til hliðar í prófkjöri Samfylkingarinnar og tiltölulega nýjum manni hleypt inn.

Svandís minnist ekki mikið á R-listann í baráttunni og Björn Ingi er nú í hreinni og klárri stjórnarandstöðu. Og þrátt fyrir að 4 efstu sætin hjá samfylkingunni hafi tilheyrt R-listanum eru afrek R-listans ekki beint fyrirferðarmikil í baráttunni hjá þeim. Þetta er frekar öfugsnúin barátta miðað við það þessir þrír flokkar hafa verið við völd í 12 ár og það er varla minnst á það sem gert hefur verið. Kannski er það samt að breytast sbr. auglýsingarnar "Einu sinni var Reykjavík smábær. Nú er hún frábær" :)

11:08 AM  

Post a Comment

<< Home