Tuesday, April 11, 2006

Aftur um tjáningarfrelsi

Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég um kæru Samtakanna '78 á hendur Gunnari í Krossinum vegna ummæla sem hann lét falla í Morgunblaðsgrein um samkynhneigða.

Ég fékk einhver viðbrögð við þessari grein og m.a. kommentaði Sindri Guðjónsson, penni á Íhald.is, á færsluna. Ég tek mér það leyfi að birta kommnetið, en hann vitnaði í umræðu á spjallþræði Frjálshyggjumanna:

„Þetta er af spjallinu á vef frjálshyggjufélagsins, Hallgeir skrifar:

En samkynhneigðir verða að bíta í það súra epli að ef þeir vilja sjálfir hafa frelsi þegar kemur að lífsstíl, tjáningu og skoðunum að þá verða þeir að virða slíkan rétt hjá öðrum. Sama hvort skoðanir þeirra falli undir ríkjandi hugsun í samfélaginu eða ekki. Áður fyrr var það versti óvinur samkynhneigðra að þröngva slíkri rétthugsun yfir alla í gegnum landslög, það er sjálfselska og hræsni að breyta prinsipinu eingöngu vegna þess að maður sé kominn hinum megin við línuna. Ég er sjálfur samkynhneigður og lýt á þetta allt saman á léttum nótum.““

Ég átta mig ekki alveg á því hvort þetta sé meint sem svar við því sem ég skrifaði. Skrif Hallgeirs eru allavega góðra gjalda verð og gott að menn taki Gunnari á léttu nótunum. Mér finnst þessi skrif ekki beint tengjast því sem skrifað var á Íhald.is um kæruna og málið né því sem ég skrifaði um málið. Ég benti á það í færslunni minni að mér þótti heldur glannalegt af Íhaldsmönnum að segja að Samtökin '78 séu andstæðingar tjáningarfrelsis og að þeim væri líkt við alræðisríki síðustu aldar fyrir það eitt að kæra Gunnar vegna ummæla sinna. Að kæra einhvern vegna ummæla felur ekki í sér að sá sem kæri vilji svipta viðkomandi tjáningarfrelsi sínu, hvað þá að hann vilji svipta okkur öll hin tjáningarfrelsi okkar.

Þetta væri annað mál ef Samtökin hefðu t.d. krafist þess að Gunnari eða öðrum yrði hreinlega bannað að tjá sig um málefni samkynhneigðra. Eða að enginn mætti tjá sig opinberlega um þessi málefni nema formaður Samtakanna fengi fyrst að lesa greinina yfir og hún yrði einungis birt ef hún félli Samtökunum í geð.

Það var hins vegar ekki uppi á teningnum. Það sem Samtökin gerðu var að kæra Gunnar, þannig að hann verður að taka ábyrgð á ummælum sínum fyrir dómi. Af hverju eru Íhaldsmenn mótfallnir því?

En talandi um bann við opinni umræðu hvernig væri að líta á umræðu um reykingar? Henni er sniðinn svo þröngur stakkur í lögum um tóbaksvarnir að annað eins er vandfundið.

Þar er lagt fortakslaust bann við því að talað sé opinberlega um reykingar og tóbak, nema til að vara sérstaklega við þeim. Þar er augljóslega of langt gengið. Þó það sé í tísku um þessar mundir að „jarða“ umræður, sbr. Siv Friðleifsdóttur um tillögur Jónínunefndarinnar, þá held ég að Þorgrímur og félagar gangi fulllangt í reykingartrúarbrögðunum með þessum lögum. Í 7. gr. segir t.d. að bönnuð sé "hvers konar umfjöllun í fjölmiðlum um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra".

Já - forðumst upplýsta umræðu! Hún getur ekki verið til góða.

P.s: Til að forðast málsókn mun ég hér í lokin vara sérstaklega við skaðsemi tóbaks: Passið ykkur, tóbak er MJÖÖGG hættulegt!

|

6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Horfði óvart á Spaugstofuþátt um daginn. Í þættinum var gert grín að sinubrunanum "mikla" og tekið viðtal við meintan upphafsmann brunans, en talið er að brunnið hafi út frá sígarettuglóð. Í viðtalinu sagði upphafsmaðurinn að hann hefði átt að reykja sígarettur með minni styrkleika og nefndi að hefði hann reykt Salem Lights hefðu mun færri hektarar lands brunnið en gerðist, enda reykti hann Winston.

Þessi ummæli um Salem Lights brjóta í raun í bága við Tóbaksvarnarlögin.

Sama á við um frétt á RÚV fyrir nokkrum mánuðum sem fjallaði um apa nokkurn í dýragarði sem væri orðinn háður sígarettum. Í fréttinni kom fram að apinn vildi helst filterslausar Camel.

4:03 AM  
Blogger Árni said...

Það er spurning hvort þetta comment þitt brjóti ekki tóbaksvarnarlögin Gunni!

Lógíkin í þessu er engin. Ég er sannfærður um að fljótlega verður þess krafist af Lýðheilsustofnun og Þorgrími Þráinssyni að sett verði á laggirnar sérstök eftirlitsstofnun sem sjái um að skoða umræður og skrif á Netinu um tóbak og handtaka þá sem skrifa eitthvað um tóbak eða sígarettur.

Allt þetta æði er dæmi um góðan málsstað sem barist er gegn með vondum meðulum.

7:06 AM  
Blogger d said...

Er það ekki einmitt grundvöllur hins vestræna tjáningarfrelsis að það er ekki takmarkalaust? Menn hljóta bera ábyrgð á ummælum sínum eins og þú bendir á. Svo gerist annað af tvennu: Gunnar vinnur eða Gunnar tapar. En hvort sem gerist hefur ekki verið hróflað við tjáningarfrelsinu.

8:25 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég held að Þorgrímur vinni ekki hjá lýðheilsustofnun lengur. En hann er auðvitað holdtekja forvarnarstarfs á Íslandi og því sjálfsagt að nefna hann í hvert skipti sem þetta ber á góma.

öpr

8:26 AM  
Anonymous Anonymous said...

Vona að ummæli á bloggsíðum séu ekki orðin það hátt skrifuð að þau flokkist sem "fjölmiðill" í skilningi laga. Ef svo væri þá gæti skapast skemmtileg staða ef ákært yrði fyrir ummælin. Dómstóllinn yrði að passa sig á að endurtaka ekki setningarnar umdeildu því allt eins mætti flokka dóminn sjálfan og birtingu hans á heimasíðu sem brot á lagaákvæðinu.

Mælikvarði á tjáningarfrelsi hlýtur að felast í því hvaða hömlur eru settar á tjáningu, að hvaða marki þær stefna og hvernig þeim er framfylgt, ekki einungis hvort að einhverjum hömlum sé framfylgt eða ekki. Það getur ekki verið nægilegt fyrir "vestrænt tjáningafrelsi" að menn beri bara að lokum ábyrgð á ummælum sínum fyrir dómi, sama hvers eðlis takmarkanirnar eru.

2:54 AM  
Blogger Árni said...

Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar verða takmarkanir að vera lögbundnar og nauðsynlegar í lýðræðisríki. Í þessu tilviki, þ.e. máli Gunnars í Krossinum, þá er hann ákærður á grundvelli 233.gr.a. í hegningarlögum um að vernda ákveðna hópa gegn niðrandi ummælum. Það hefur verið staðfest af Hæstarétti að sú grein standist þessar kröfur sem 73. gr. setur. Það gerði Hæstiréttur í Hvíta Ísland málinu.

10:15 AM  

Post a Comment

<< Home