Friday, April 28, 2006

Feluleikurinn mikli

Stígur Helgason, stjórnarmaður í Röskvu, skrifar pistil á heimasíðu félagsins í gær um Vöku, Sjálfstæðisflokkinn og skólagjöld. Þar fer Röskvumaðurinn knái hörðum orðum um Vökuliða og segir þá í felum með það að vera Sjálfstæðismenn. Að vísu séu kannski ekki alveg allir Vökuliðar felu-Sjálfstæðismenn, því forvígismenn Vöku viti að það kæmi ekki vel út á pappír – en hins vegar séu svona alveg vel flestir Sjálfstæðismenn.

Þetta tengist síðan, segir Stígur, hinni eilífu grundvallarspurningu í stúdentapólitíkinni um skólagjöld, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sé hlynntur upptöku skólagjalda. Röksemdafærslan hjá Stíg er á þá leið að þar sem margir Vökuliðar séu í Sjálfstæðisflokknum, sé sú afstaða Vöku að vera andvíg upptöku skólagjalda ótrúverðug. Hann jafnar þessu saman við það að innflytjandi á Íslandi væri í flokki sem berðist fyrir fækkun innflytjenda í landinu (ég skil hvað við er átt en mér er fyrirmunað að sjá hvernig hægt sé að jafna þessu saman – kannski er ég ekki nógu mikil dramadrottning?).

Stígur segir að hjá Röskvu þekkist ekki þessi tvískinnungur sem einkennir Vöku. Þar starfar að hans sögn fólk úr ýmsum flokkum, í raun öllum nema Sjálfstæðisflokknum: "Röskva hefur dygga fylgismenn ýmissa flokka á sínum snærum og fer alls ekkert í grafgötur með það, ólíkt Vöku. Margir starfa með Samfylkingunni eða Vinstri grænum, einstaka manneskja með Frjálslyndum og sumir með Framsóknarflokknum."

Nú veit ég ekki hvort Stígur hefur kynnt sér stefnuskrár þeirra flokka sem eru velkomnir innan Röskvu. Honum til glöggvunar vil ég þó benda á eftirfarandi kafla úr stefnuskrá Samfylkingarinnar í menntamálum:

"Samfylkingin vill efla háskólastig verulega og losa úr viðjum þeirra sveltistefnu sem stjórnvöld halda því í. Sérstaklega með tilliti til rannsókna og framhaldsnáms. Samfylkingin hafnar því að skólagjöld og fjöldatakmarkanir séu notuð til að leysa fjárskort háskólastigsins. Skólagjöld á tiltekið nám að uppfylltum ákveðnum skilyrðum koma til greina, en tryggja þarf að lánað sé fyrir gjöldunum og afborganir af lánunum verði tekjutengd. T.d. gjöld á tiltekið framhaldsnám. Áður en frekari skref eru stigin í gjaldtöku þarf að fara fram opin og heildstæð umræða um fjármögnun háskólastigsins."

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar:

"Landsfundur leggur til að nemendur við opinbera háskóla taki í auknum mæli þátt í kostnaði við nám sitt."

Ég fæ einhvern veginn ekki séð að það sé himinn og haf þarna á milli. Samfylkingin segir skólagjöld koma til greina að vissum skilyrðum uppfylltum, en Sjálfstæðisflokkurinn segir að nemendur við opinbera háskóla taki í auknum mæli þátt í kostnaði við nám sitt. Sé þetta yfirfært á dæmi Stígs um innflytjandann, væri annars vegar um að ræða flokk sem teldi koma til greina að fækka innflytjendum í landið en hins vegar flokk sem teldi að það ætti í auknum mæli að fækka innflytjendum.

Það virðist samt að þetta daður Samfylkingarinnar við skólagjöld skipti Stíg ekki miklu máli. Kannski er það allt öðruvísi ef Samfylkingin vill skólagjöld, heldur en þegar Sjálfstæðisflokkurinn vill þau? Hvernig sem því er farið starfa engu að síður margir úr Samfylkingunni í Röskvu. Í greininni birtir Stígur eins konar lista af Sjálfstæðismönnum innan Vöku og rekur tengsl þeirra við ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins en þegar slík tengsl eru ekki fyrir hendi eru menn sagðir "yfirlýstir" Sjálfstæðismenn.

Listi Samfylkingarmanna í Röskvu er væntanlega ekki mikið styttri. Mér er því spurn hvernig Stígur getur þá, ef hann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér, nokkurn tíma fallist á að vinna með fólki sem er í flokki sem telur skólagjöld koma til greina? Af hverju gerir hann ekki þá skýlausu kröfu að hver einasti Samfylkingarmaður í Röskvu segi sig nú þegar úr flokknum? Eins og hann segir sjálfur: "Allt snýst þetta um skólagjöld. Alstærsta og mikilvægasta málefni allra þeirra sem eru fylgjandi jafnrétti til náms er baráttan gegn upptöku skólagjalda við ríkisháskóla." Brýtur það ekki gegn trúarbrögðunum að Röskvufólk styði flokka eins og Samfylkinguna, sem segja skólagjöld koma til greina?

Grein Stígs finnst mér, ef satt skal segja, heldur einstrengingsleg og fyrst og fremst ganga út á að sýna fram á að Röskva sé meira á móti skólagjöldum en Vaka, þótt báðar fylkingar séu á móti skólagjöldum! Stúdentaráð hefur að mínu mati farið vel af stað í ár, en það er alveg ljóst að ráðið og pólitíkin í heild sinni á við ákveðinn tilvistar- og ímyndarvanda að stríða. Þeir sem starfa á vettvangi fylkinganna þurfa að sýna það út á við að það mikla starf sem fylkingarnar leggja á sig sé virkilega þess virði en gangi ekki bara út á að reyna að grafa undan hinum aðilanum. Það er lítill gróði fólginn í því.

Vaka hefur upptöku skólagjalda ekki á dagskrá og hefur ekki haft. Er það ekki nóg sönnun fyrir Röskvuliða? Eða er von á fleiri samsæriskenningum um fylkinguna sem Röskva vinnur með í Stúdentaráði? Ég allavega vona að tíminn verði nýttur í eitthvað uppbyggilegra.
|

3 Comments:

Blogger Stígur said...

Jæja, ætli maður þurfi ekki að svara fyrir sig. Pistill minn var skrifaður til að útskýra þá gagnrýni sem sumir hafa viðhaft um tengsl Vöku og Sjálfstæðisflokksins, ekki gagngert til að ala á óvild milli fylkinga, svo það komi skýrt fram. Það er hins vegar alveg ljóst að Vaka og Röskva er ekki sama fylkingin þótt þær starfi saman í Stúdentaráði og hvorug fylkingin ætti að þurfa að vera viðkvæm fyrir gagnrýni.

Þú bendir á stefnuskrá Samfylkingarinnar og feitletrar þar tilvitnun sem þér þykir sína fram á ótvíræðan stuðning flokksins við skólagjöld. Sjálfur er ég ekki Samfylkingarmaður og finnst mér ekki bera skylda til að verja stefnu flokksins, en mig langar þó að benda á að það er víst himinn og haf á milli þess að telja skólagjöld hugsanlega koma til greina í einhverri mynd (þótt slæmt sé) og að mæla bókstaflega með þeim. Það er fráleitt að halda öðru fram. Ég vil líka benda á það að næsta málsgrein á undan segir "Samfylkingin hafnar því að skólagjöld og fjöldatakmarkanir séu notuð til að leysa fjárskort háskólastigsins." Ég fæ ekki betur séð en að þetta sæmræmist stefnu Röskvu (og Vöku) miklum mun betur en stefna Sjálfstæðisflokksins.

Annað sem benda verður á er stefna ungliðahreyfinga þessara flokka, en flest háskólafólk sem starfar með flokkunum starfar jú með þeim. Þannig segir í stefnuskrá ungra jafnaðarmanna að samtökin séu "hatrammlega á móti skólagjöldum". Afstaðan verður ekki skýrari. Sem mótvægi bendi ég aftur á ályktun SUS um afnám allra ríkisstyrkja til menntamála. Himinn og haf.

Hefur þú svo eitthvað út á listann minn að setja? Eini maðurinn sem ég segi yfirlýstan Sjálfstæðismann ert þú. Varla ferðu að mótmæla því að þú styðjir Sjálfstæðisflokkinn? Flestir vita betur en svo.

5:45 AM  
Blogger Árni said...

Sæll Stígur og takk fyrir svarið.

Dæmið um Samfylkinga sýnir fyrst og fremst hvað svona umræða er kjánaleg. Það á ekki að dæma menn í stúdentapólitíkinni út frá því hvar í flokki þeir standa í landsmálum heldur fyrir það sem þeir gera í Stúdentaráði.

Afstaða Vöku hefur verið sú að ekki eigi að taka upp skólagjöld og þeir Vökumenn sem hafa farið að vinna innan Sjálfstæðisflokksins eða ungliðahreyfingum hans, hafa haldið þeirri afstöðu fram þar. Það gera án efa líka þeir Röskvumenn sem fara að vinna innan Samfylkingarinnar, þó þeim virðist nú ekki hafa orðið mikið meira ágengt heldur en Vökuliðum innan Sjálfstæðisflokksins.

Ég held að vandamálið í dag sé ekki að afstaða stúdentahreyfinganna til skólagjalda hafi ekki verið nógu einörð eða nógu afgerandi. Hún hefur komið svo oft og ítrekað fram undanfarin ár að margir eru farnir að fá leið á að heyra frá fylkingunum og ráðinu um skólagjöld! Ég held að baráttan sé föst í sömu hjólförunum ef þetta fer út í rifrildi um hvort Vaka sé í raun á móti skólagjöldum eða ekki.

Varðandi sjálfan mig, þá minnist ég þess ekki að hafa lýst því yfir við þig eða félaga þína að ég væri Sjálfstæðismaður. Ég hef leyft mér undanfarin misseri að vera fyrir utan flokkapólitík. Ég er ekki sammála Sjálfstæðisflokknum í öllum málum, frekar en öðrum flokkum, en mér finnst hins vegar mikið til Sjálfstæðisflokksins koma á mörgum sviðum.

En að lokum má ég til með að benda á þessa frétt:

http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1198810

Það ber ekki á öðru en að fyrrverandi framkvæmdastjóri SHÍ fyrir hönd Röskvu sé að verða einn ötulasti talsmaður skólagjalda og einkarekstur háskóla!

2:16 PM  
Blogger Stígur said...

Takk fyrir málefnalegt svar Árni. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að vera örlítið ómálefnalegur í smá stund og kalla Runólf Ágústsson óferjandi vitleysing. Fyrir hönd Röskvu fordæmi ég afstöðu hans og afneita honum. Mér skilst að hann hafi líka einhvern tíma verið Samfylkingarmaður. Ef ég væri háttsettur þar myndi ég útskúfa hann úr flokknum. Hann á ekkert skylt með fólki sem styður jafnrétti til náms.

6:51 AM  

Post a Comment

<< Home