Monday, April 24, 2006

Skortstaða… bleh!

Það er ekkert grín að reyna að hlusta á fréttir og fylgjast með í þjóðmálaumræðunni í dag. Fréttamenn tönnlast á hverju öðru orðskrípinu sem enginn skilur og maður er engu nær. Dæmi um þetta var fréttin um að norski olíusjóðurinn hefði um daginn tekið sér skortstöðu gagnvart íslensku krónunni.

Hvað í ósköpunum er það eiginlega?

Ég hlustaði á þessar fréttir, skildi ekkert, gjóaði svo augunum í kringum sig til að athuga hvort einhverjir aðrir væru að fatta þetta og reyndi að lokum að mynda mér óljósa skoðun á málinu.

Fyrst um sinn mótaðist sú skoðun aðallega af því að norski olíusjóðurinn væri að reyna að koma höggi á okkur Íslendinga. Já,já, hugsaði ég – eru þessir olíukommar þarna í Noregi sem sagt að fara að atast í bestu og fallegustu þjóð heims? Vita þeir ekki að Gilzenegger er íslenskur…?

Ég komst þó fljótlega að því að þessi niðurstaða væri sennilega ekki tæmandi í málinu. Eins líka fóru að renna á mann tvær grímur þegar fjölmiðlar leituðu viðbragða norskra embættismanna við þessum viðbrögðum Halldórs Ásgrímssonar, sem móðgaðist og mótmælti þessum aðförum Norðmanna. Þeim fannst þetta hafarí samt aðallega fyndið – þetta væru nú bara frjáls viðskipti. Og þegar Norðmenn eru farnir að benda okkur á hvað séu frjáls viðskipti er kannski kominn tími til að staldra við… eða hvað?

Á öld internetsins á þetta þó ekki að vera mikill vandi. Ég gúgglaði skortstöðu og það skilaði sér strax. Í stuttu máli er skortstaða sum sé þegar fjárfestir fær lánuð hlutabréf sem hann selur strax á markaði til að geta keypt þau aftur á lægra verði síðar. Þegar það tekst skilar hann bréfunum til þess sem lánaði honum þau upphaflega. Kannski svipað og ef ég fengi lánaða kippu af bjór frá mömmu og seldi vini mínum hana á 1300 kall. Svo þróuðust mál þannig að hann færi ekkert á fyllerí, þannig að ég keypti kippuna aftur á 1000 kall og skilaði mömmu bjórnum. Hirði 300 kall!

Stundum er ég þeirrar skoðunar að þegar birtar eru fréttir sem byggjast á torskildum hagfræðilegum hugtökum, eigi skilyrðislaust að birta litla aukafrétt með, sem svarar spurningunni: Hvað er skortstaða? Að vísu er stundum sýnt ákveðin viðleitni til þess í fyrstu, þannig að snöggsoðin útskýring er látin fylgja með fyrstu fréttinni en síðan ekki söguna meir. Þaðan í frá veit þetta bara fréttamaðurinn sem skrifaði fréttina. Ef þetta væri almennilegt væru svona útskýringar látnar fylgja með hverri einustu frétt um málið!

Svona útskýringar verða þó örugglega seint mikið sport hér á landi. Fyrir það fyrsta tekur það pláss frá fréttinni sjálfri. Þar að auki myndi þessi minnihluti þjóðarinnar, sem þekkir þessi hugtök í þaula og veit um hvað þau snúast, örugglega byrja að nöldra um að það væri nú örugglega enginn svo vitlaus að það þyrfti að tyggja svona sjálfsagða hluti ofan í fólk. Og þar sem enginn vill stíga fram og viðurkenna að hann sé svo vitlaus að hann viti ekki hvað skortstaða er eða hafa aldrei skilið útskýringuna, yrði sennilega farið að þessari ósk sérfræðinganna og engar útskýringar birtar. Hinn þögli meirihluti verður því væntanlega að una því um ókomna framtíð að fréttir séu skrifaðar af sérfræðingum fyrir sérfræðinga, á máli sem enginn skilur almennilega.
|

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Árni, díses. Það vita allir hvað skortstaða er. Nei annars er ég svo hjartanlega sammála þér. Hvernig væri að helstu fréttamiðlarnir myndu bara viðhafa orðalista á síðum sínum með obscure hugtökum sem tengjast því fréttamáli sem er helst í deiglunni hverju sinni. Verðbólga og gengi, maður er bara eitt spurningamerki ?
Sigga

1:55 PM  
Blogger Agnar said...

Ég trúi því nú einfaldlega ekki að hvert einasta mannsbarn viti ekki hvað skortstaða er... undarlegt það.

7:17 AM  
Blogger Árni said...

Sem hagfræðinemi ertu auðvitað samkvæmt skilgreiningu frekar sérkennilegur maður

10:08 AM  
Anonymous Anonymous said...

Skemmtilegt blogg hjá þér, nýbúin að uppgötva það. Ég er alveg sammála þér, manni líður eins og asna að skilja ekki fréttirnar þó að maður eigi að heita sæmilega menntaður. Þeir sem skrifa slúðurfréttirnar standa sig betur í svona útskýringum, held ég. Þær enda oft á frösum eins og "en þess má geta að x var áður í sambandi við y í 6 ár og ættleiddu þau 2 börn saman áður en y tók saman við z" og bla bla.
Kv. Steina

5:04 PM  

Post a Comment

<< Home