Monday, April 17, 2006

Gleðilega páska frá Umferðarstofu

Hvað þykist Sigmundur Ernir og V-dagurinn geta fullyrt að fólk hugsi þegar sögð er frétt um að ungri stúlku hafi verið nauðgað? Ég þekki engan sem telur að nauðgun sé fórnarlambinu að kenna. Eflaust eru þeir til, þótt þeir séu nú ekki margir, sem telja að svo sé. En það er engin ástæða til þess að halda því fram að allir geri það.

Og hvað er í gangi hjá Umferðarstofu? Páskaglaðningurinn frá þeim í ár sýnir ölvaða krakka í bíl sem keyra á undir tilheyrandi öskrum og dramatík. Í lokin óskar Umferðarstofa svo landsmönnum gleðilegra páska. Áhrifaríkt...

Eru engin takmörk fyrir því hvað þessar auglýsingar hjá þeim geta verið ógeðfelldar og smekklausar? Hver er síðan árangurinn af þessu öllu? Eru allir peningarnir sem Umferðarstofa borgar ímyndarsmiðum, auglýsingastofum og hönnuðum fyrir að hugsa upp eitthvað nógu óhugnanlegt og sjokkerandi, að skila sér í bættri umferðarmenningu? Ég er ekki viss um það. Og ég held að lausnin við því sé ekki sú að búa til meira brútal auglýsingar.

Það er hins vegar oftast algert tabú að mótmæla auglýsingum sem þessum. Þeir sem gagnrýna það að auglýsingarnar gangi of langt, eru fyrir vikið á móti málstaðnum eða sagðir hræddir við að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að laga vandann.

Mér finnst þetta alltof langt gengið með auglýsingar Umferðarstofu. Það er hægt að stuðla að bættri umferðarmenningu án þess að eyða stórfé í auglýsingar sem gera það eitt að verkum að áhorfendum líður illa við að horfa á þær. Hvað með að hafa auglýsingarnar svoldið markvissar og uppbyggilegar? Þannig að áhorfendur séu skildir eftir með einhverja hugmynd um hvernig þeir geta orðið betri ökumenn, frekar en að þeir séu skildir eftir í sjokki?
|

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Í Lögbergi var einhver að segja að þetta vídjó væri raunverulegt og hefði verið sýnt fyrst á b2 eða einhverjum andskotanum. En menn segja svo margt í Lögbergi.
Spurning hvort það myndi einhverju breyta hvort þetta er raunverulegt?

6:43 PM  
Blogger Árni said...

Ég vissi það ekki. Það allavega skýrir þessa auglýsingu að vissu leyti. Finnst það samt hálfvafasamt að sýna þetta. En kannski er ég bara svona viðkvæmur!

7:35 PM  
Blogger d said...

Hjartanlega sammála. "Blátt áfram" auglýsingarnar sem gengu á dögunum voru til dæmis fullkomlega smekklausar. Hvað gengur fólki til?

1:10 PM  
Blogger Árni said...

Já vandinn er að það virðist vera hafin þróun sem ekki sést fyrir endann á og felst í að það þarf alltaf að ganga lengra og lengra með hverri auglýsingunni til að ná athygli áhorfenda. Einu sinni var nóg að það væri gefið í skyn í auglýsingu að einhver slasaðist eða yrði fyrir bíl. Þá var það "sjokkerandi". Í dag þætti alveg tilgangslaust að framleiða þannig auglýsingu. Það minnsta sem þarf að gera núna er að sýna blóð og öskur og dramatík. Hvar ætli þetta endi?

10:16 PM  

Post a Comment

<< Home