Tuesday, April 25, 2006

Er leikflétta í fjölmiðlafrumvarpinu?

Nýtt fjölmiðlafrumvarp hefur verið kynnt í stjórnarflokkunum og fjölmiðlum. Allt bendir til þess að þverpólitísk sátt muni ríkja um málið. Annað væri líka óeðlilegt, tæp tvö ár eru liðin frá því að fyrsta frumvarpið kom fram og tími hefur gefist til að vinna þetta í samvinnu og samráði með öllum flokkum. Það er kannski út af fyrir sig merkilegt að allan þennan tíma virðist aldrei hafa verið neinn grundvallarágreiningur um efnisatriði málsins. Allir flokkar voru alltaf til í að takmarka eignarhald á fjölmiðlum á einhvern hátt, það bara var spurning hvernig staðið væri að málinu. Það er merkilegt út af fyrir sig, vegna þess að á sínum tíma geysuðu um þetta mál svo hatrammar deilur að maður hefði haldið að þetta væri grundvallaratriði í hugum þeirra sem gengu hvað harðast fram. Ætli Björgvin G. Sigurðsson lesi t.d. aftur upp úr Frelsinu eftir John Stuart Mill við umræður um málið eins og hann gerði á sínum tíma? Sennilega ekki.

En það er annar vinkill á þetta mál sem Sigurður Líndal hefur bent á í viðtali við Fréttablaðið. Hann er sá að það samræmist ekki jafnræðisreglum að eignarhald á Ríkisútvarpinu verði á hendi eins aðila eftir að ákvæði fjölmiðlafrumvarpsins taka gildi. Að vísu er talað um það í nýja fjölmiðlafrumvarpinu að RÚV eigi að vera undanskilið þeim reglum en það er ekki víst að sú regla standist stjórnarskrá. Þorsteinn Pálsson gerir þetta líka að umfjöllunarefni sínu í leiðara dagsins.

Og hver er það sem á allt hlutaféð í RÚV? Ríkið á það allt eftir að búið er að háeffa RÚV - og því gæti það farið svo að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar eða reglur EES-sáttmálans leiddu til þess að mati dómstóla eða ESA að ríkið hreinlega yrði að selja 75% af sínum hlut!

Trúlega myndu fáir í Sjálfstæðisflokknum syrgja þau endalok, að minnsta kosti ekki þeir sem barist hafa fyrir einkavæðingu Ríkisútvarpsins undanfarin ár. Með þessu yrði allavega stigið stórt skref þá átt. Kannski er þetta allt saman úthugsuð leikflétta ofan úr Valhöll?