Wednesday, April 19, 2006

Nýr stjórnmálaflokkur gegn innflytjendum?

Horfði á viðtalið við Ásgeir Hannes Eiríksson í Kastljósinu áðan. Fyrir þá sem sáu þetta ekki, þá lét Ásgeir sem sagt gera könnun um hvort Íslendingar gætu hugsað sér að styðja stjórnmálaflokk sem vildi takmarka eða draga úr fjölda útlendinga hingað til lands. Í ljós kom að þriðjungur aðspurðra sagði líklegt eða mjög líklegt að þeir myndu styðja slíkan flokk.

Ásgeir Hannes sagðist að vísu ekki ætla að stíga fram og stofna slíkan flokk sjálfur en hann myndi vera meira en til í að aðstoða slíka hreyfingu ef hún kæmi fram. Þegar hann var spurður um hvernig slíkur flokkur myndi starfa, vísaði hann meðal annars til stjórnmálamannanna Mogens Glistrup og Carl Hagen. Þeir eru nú ekki beint upplífgandi fyrirmyndir. Sá fyrrnefndi hefur m.a. haldið því fram að reka eigi alla innflytjendur úr landi í Danmörku og að annað hvort væru menn með kynþáttafordóma eða þeir væru föðurlandssvikarar.

Það er hamingja íslenskra stjórnmála að svona flokkur hefur ekki komið fram. Slíkir flokkar nærast á óánægju og reiði í garð innflytjenda og þegar þeir eru einu sinni komnir fram á sjónarsviðið draga þeir sig sjaldnast til baka að sjálfsdáðum.

Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa hins vegar ekki staðið sig í stefnumótun í málefnum innflytjenda. Eiríkur Bergmann gerði könnun á þessum málum um daginn og í ljós kom að fæstir flokkanna hafa lagt mikla vinnu í þessi mál og margir þeirra hafa í raun ekki stefnu í málefnum útlendinga.

Flokkar, eins og sá sem Ásgeir vill sjá verða til, eru hins vegar til víða í Evrópu - í Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og Austurríki þar sem Jörg Haider hefur verið einna fremstur í flokki. Þessir flokkar byggja fylgi sitt á fullyrðingum á borð við þær að útlendingar steli vinnu frá heimamönnum, lifi á bótum, einangrist í ákveðnum hverfum og aðlagist ekki samfélaginu. Reyndar stangast fyrstu tvær fullyrðingarnar í rauninni á. En auk mikillar andstöðu við innflytjendur berjast þessir flokkar oft fyrir öðrum málefnum, eins og lágum sköttum og hertri löggæslu, dæmigerðum baráttumálum íhaldsflokka. Þeir eru því réttnefndir hægri-öfgaflokkar.

Ásgeir Hannes á sér ákveðna forsögu í opinberri umræðu hér á landi. Hann var á þingi sem varamaður Alberts Guðmundssonar fyrir Borgaraflokkinn í kringum 1990. Þá gat hann sér gott orð fyrir hin undarlegustu þingmál, s.s. að banna innflutning á fóstureyðingarpillum þar sem íslensku þjóðinni hefði ekki fjölgað eðlilega undanfarin ár eins og Múrinn hefur haldið til haga. Þá er hann einnig þekktur fyrir að hafa flutt eina stystu ræðu í sögu þingsins: Virðulegi forseti. Álverið rísi! Svo mörg voru þau orð. Það mætti kannski benda stjórnarandstöðunni á þessa nálgun í ræðumennsku á þinginu?

Þetta virðist hins vegar ekki vera í fyrsta sinn sem Ásgeir viðrar hugmyndir um slíkan stjórnmálaflokk.

Vonandi verður honum ekki meira ágengt núna en þá. Það er hins vegar umhugsunarefni að svo margir játi slíkum flokki fylgi sitt, sérstaklega meðal ungs fólks. Meðan eftirspurnin fyrir slíkum flokki er til staðar er alltaf hætta fyrir hendi á að hann verði stofnaður.
|

7 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hefurðu lesið eina með öllu? Það er bærileg lesning. ;)

3:49 AM  
Blogger Árni said...

Er hún eftir Ásgeir Hannes?

10:33 AM  
Blogger Atli said...

Árni!
Mig hefur aldrei rekið inn á blók þitt fyrr (prófatíðin flytur fjöll) en þessi fyrstu kynni mín af því eru vægast sagt ánægjuleg, þó fregnin sem hér er til umfjöllunar sé vissulega sorgleg.

3:26 PM  
Anonymous Anonymous said...

Mjög skemmtilegur og fróðlegur pistill.

Ég verð að segja í hreinskilni að ég er mjög hrifinn af þingsályktunartillögu Ásgeirs um fóstureyðingarnar. (20% þungana á íslandi enda í fóstureyðingu, og það er alltof mikið) Og álversræðan er SNIIIIILD. (Í fullri alvöru)

Hins vegar er ég ekki sammála Ásgeiri að hér séu of margir innflytjendur, og því síður að þeir sem hér hafi komið séu hættulegir.

Ég er samt ekki þeirrar skoðunnar að allir sem aðhyllist takmarkanir á innflutningi fólks séu rasistar. Ásgrei virðist hins vegar vera það, þar sem hann vill helst fá fólk hingað sem er "líkt okkur í menningu og ÖRÐU." (ég skil "öðru" sem m.a. litarháttur/kynþáttur)

Íslensk stjórnvöld hafa staðið sig bærilega i þessum málum. Það þarf engan innflytjendaflokk.

5:32 AM  
Anonymous Anonymous said...

http://capmag.com/article.asp?ID=315

þessi er áhugaverð

5:55 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég ætla að stofna flokk á móti "Út-flytjendum"
Við Íslendingar getum bara haldið okkur á klakanum, bannað að eiga heima í öðrum löndum, stofna fyrirtæki í nágrannaþjóðum eða kynnast nýrri menningu.
Allir með?????

6:34 AM  
Blogger Árni said...

Haha! Góð pæling.

Annars virðist nú ekki ætla að verða mikið úr þessu hjá Ásgeiri vini okkar. Góður pistill um þetta á Múrnum eftir Stefán Pálsson, þar sem hann bendir á að þetta þekkist líka í Bretlandi og víðar að mikið sé gert úr þeirri ógn sem stafar af svona flokkum, til að vekja tiltrú fólks á hinum hefðbundnu flokkunum og setja pressu á kjósendur að mæta á kjörstað. Eflaust eitthvað til í því, þó kjósendur hafi án efa ýmsar aðrar góðar og gildar ástæður fyrir því að kjósa.

6:53 PM  

Post a Comment

<< Home