Thursday, April 13, 2006

Myndatökur í dómsölum

Með nýju frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi á að banna myndatökur í réttarsölum. Þó þessi hugmynd sé skiljanlega nokkuð umdeild, felur hún að mínu mati í sér skynsamlega breytingu.

Dómsalir eiga að hafa yfir sér ákveðna friðsæld og veita borgrunum öryggi. Það hefur færst í aukana að undanförnu að fjölmiðlar taki myndir inn í réttarsali af sakborningum, sem reyna að verjast ágangi fjölmiðla með því að fela andlit sitt. Það er ekki eðlilegt að menn þurfi að gera þetta meðan á réttarhöldum stendur og ekki í samræmi við það öryggi sem dómshúsin eiga að veita.

Meginreglan hér á landi er að réttarhöld eigi að vera opin. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt og eftir því er farið - almenningur, þar með talið fjölmiðlafólk, getur sótt réttarhöld auk þess sem dómar og aðrar niðurstöður dómstóla eru birtar á Netinu. Aðgengi að dómstólum er því mikið.

Það hljóta hins vegar að vera einhver takmörk á því hve opin réttarhöld eiga að vera. Þætti okkur t.d. ekki óeðlilegt að réttarhöld væru sýnd í beinni útsendingu? Fyrir dómi eru oftar en ekki til umfjöllunar persónulegar upplýsingar sem öðrum koma einfaldlega ekki við. Einhvern veginn þætti manni það ekki svo fjarstæðukennt miðað við suma fjölmiðla í dag að tekið yrði upp á því að sýna beint frá réttarhöldum.

Hvers vegna eru myndatökur í réttarsal nauðsynlegar? Hefur það sérstakt upplýsingagildi að sjá lögmenn í jakkafötum, dómara í skikkju og sakborninga með möppur eða úlpu yfir hausnum á sér? Það finnst mér ekki.

Nú kynni einhver að benda á að skv. þessum lögum hefði t.d. ekki mátt taka myndir í Baugsmálinu og taki lögin gildi megi ekki taka myndir í dómsmálum sem vekja mikla athygli í samfélaginu. Fyrir það fyrsta er heimilt að veita undanþágur frá þessari reglu og í öðru lagi verður maður að spyrja sig, hvaða þýðingu hefur það fyrir fréttaflutning af málinu að taka myndir af málsaðilum?

Þótt myndataka fjölmiðla sé að meginreglu til bönnuð er ekki þar með sagt að fjölmiðlar geti ekki fjallað um dóma og niðurstöður dómstóla. Það geta þeir og gera í miklum mæli nú þegar. Þar hlýtur hin efnislega niðurstaða málsins að skipta mestu, en ekki myndbirting af meintum sakamönnum og lögmönnum þeirra.
|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Það er bara ákveðið monní í því að sýna Jón Ásgeir skömmustulegan eða e-n búra með dagblað fyrir andlitinu. En ég er engu að síður sammála þér, mér finnst að það eigi að taka fyrir þetta.

7:17 AM  
Blogger Árni said...

Það kraumar í þér fjölmiðlamaðurinn, dreng!

8:16 AM  

Post a Comment

<< Home