Wednesday, April 05, 2006

Innflytjendur

Stjórnmál víða í Evrópu eru mjög mótuð af umræðum um innflytjendamál. Í íslenskum stjórnmálum er lítið um þetta fjallað. Undanfarin ár hefur verið næga vinnu hér að fá, þannig að vaxandi straumur innflytjenda hingað til lands hefur í raun leyst þann lúxusvanda íslensku þjóðarinnar að ekki fæst lengur starfsfólk í lægst launuðustu störfin.

Í vikunni var tilkynnt að ríkisstjórnin hygðist ekki framlengja takmarkanir á atvinnufrelsi borgara frá átta aðildarríkjum ESB sem verið hafa í gildi undanfarin ár. Það er jákvætt skref því þetta olli fyrst og fremst skriffinnsku og töfum fyrir verkafólk sem vill koma hingað til að vinna. T.d. þurftu pólskir verkamenn að fá sérstakt atvinnuleyfi til að koma til landsins, sem tók tíma að útvega á meðan Þjóðverji eða Grikki í sömu erindagjörðum þurftu þess ekki. Þó eru ákveðin skilyrði enn við lýði. Einhverjir rísa upp á afturlappirnar og telja þetta hið versta mál.

En innflytjendamálin koma inn á margt fleira en atvinnuleyfi. Hve opið á samfélagið að vera? Hve miklar kröfur á að gera varðandi íslenskukunnáttu og samfélagsþekkingu til þeirra sem vilja koma hingað og gerast íslenskir ríkisborgarar? Eiga þeir að kunna íslensku reiprennandi eða bara getað bjargað sér á íslensku?

Það eru engin einföld svör við þessum spurningum. Reglur um þessi málefni geta aldrei orðið meira en tilraun til að takast á við flókinn veruleika. Þeir einstaklingar sem vilja koma til landsins eru hvaðanæva að úr heiminum og eiga án efa mjög misgott með að koma sér fyrir í nýju landi. Við verðum að hafa í huga að á Íslandi er ýmislegt sem auðveldar innflytjendum að koma sér fyrir, t.d. góð enskukunnátta Íslendinga og gott efnahagsástand. Reglurnar um þessi efni ættu því að vera sveigjanlegar.

Undir yfirborðinu eru án efa ýmsar skoðanir uppi um þessi mál. Í nýjasta hefti Þjóðmála, þess ágæta tímarits, er því til að mynda velt upp hvort ekki sé ástæða til að taka upp eftirlit með þeim múslimum sem búa hér á landi. Þeir ku víst vera nokkur hundruð. Þessi hugmynd virðist byggjast á því að fyrst til eru öfgamenn í röðum múslima, sem fremja hryðjuverk og hafa andúð á Vesturlöndum, ættum við að hafa eftirlit með öllum múslimum sem búa hér á landi. Eigum við sem sagt að grua fólk um græsku fyrir það eitt að vera ákveðinnar trúar? Það finnst mér ekki.

Talandi um trúmál, þá er skammt stórra högga á milli. Það er ekki fyrr búið að sanna að Rauðahafið hafi getað klofnað fyrr en sýnt er fram á að Jesú hafi getað gengið á vatni. Málið var bara að hann gekk á ís!