Sunday, April 02, 2006

Hin réttlátu mótmæli

Mótmælaaldan í Frakklandi virðist hlýja vinstrimönnum hér heima um hjartarætur. Á Múrnum er til að mynda talað um að Frakkar þori að benda á hin augljósu sannindi að kapítalisminn sé ósanngjarn. Við hin séum hins vegar orðin ónæm fyrir þessu óréttlæti, því okkur hafi verið sagt það svo oft hvað kapítalisminn sé frábær. Almenningur er sem sagt orðinn svo heilaþveginn að hann skilur ekki lengur neitt í neinu og greinir ekki ranglætið frá réttlætinu.

En er það virkilega svo að öll réttlætiskenndin í Frökkum sé að skila árangri? Tæplega. Þar er atvinnuleysi með því hæsta í Evrópu og viðvarandi efnahagslægð. Miðað við ákafann í mótmælunum mætti halda að með þessum umræddu lögum sé verið að svipta fólk kosningarétti eða skipa fyrir um brottflutning blökkumanna úr landinu. En svo er ekki. Tilgangur hinna umdeildu laga er einfaldlega að reyna að ráða bug á atvinnuleysi ungs fólks en ekki “skerða atvinnuréttindi” þeirra eins og margir tönglast á.

Er ekki allt eins verið að auka atvinnuréttindi fólks með því að gera fólki auðveldara um vik að fá vinnu? Ef það er erfitt að segja upp fólki verða fyrirtækin jú að sama skapi tregari til að ráða nýtt starfsfólk. Með þessum lögum er lagt til að fyrirtæki geti ráðið ungt fólk á sérstakt tveggja ára tímabil, þar sem hægt er að segja starfsfólki upp fyrirvaralaust og án þess að gefa upp ástæðu. Vissulega getur það verið ósanngjarnt en það er spurning hvort sú fórn sé ekki færandi til að fá fleiri störf? Það finnst mér í það minnsta ekki svo fáranleg hugmynd að hún verðskuldi margra vikna mótmæli.

En það er eitthvað svo rómantískt og heillandi að sjá þúsundir ungmenna mótmæla. Sérstaklega í þessu nútímasamfélagi þar sem margoft hefur verið sýnt og sannað að við gerum alltof mikið af því að sitja og horfa á sjónvarpið og æ minna af því að taka þátt í félagsstörfum. Það þýðir þó ekki endilega að mótmælendur hafi rétt fyrir sér með því einu að mótmæla. Þetta er hins vegar farið að verða þvílík list í Frakklandi að mótmælin vekja mikla athygli, sérstaklega kannski hjá fólki eins og okkur Íslendingum, sem sjáum mótmæli fyrir okkur sem fámennar samkomur kaffihúsamanna. Fyrir vikið fær maður það ósjálfrátt á tilfinninguna að fyrst allt þetta fólk leggi það á sig að mótmæla, hljóti það að hafa rétt fyrir sér og það verður allt að því rétttrúnaðaratriði að vera sammála kröfum mótmælendanna. En það getur komið upp að fólk berjist fyrir röngum málstað og að hann sé rangur jafnvel þótt mjög margir berjist fyrir honum og viðhafi stór orð um málið. Og þeir eru ekki endilega handhafar sannleikans fyrir vikið.