Sunday, April 02, 2006

Nostalgía

Skellti mér á Morfís á föstudagskvöldið og sá MR og MH takast á í úrslitaviðureigninni. Þrátt fyrir að það séu orðin fimm ár síðan ég útskrifaðist úr menntaskóla er maður enn eitthvað viðloðandi þetta og hef gaman af. Það var líka mjög gaman að sjá MR-ingana vinna keppnina og draga titilinn í hús í fyrsta sinn í 18 ár. Sagan segir að Birgir Ármannsson hafi verið í síðasta MR-liðinu sem vann. Langur tími, en þó ekki 31 ár eins og hjá KR.

Þetta var nokkuð sanngjarn sigur fannst mér. Umræðuefnið var frelsi einstaklingsins og MR með. Liðið er nokkuð jafnt, enginn sem stendur upp úr en allir sterkir. Í MH-liðinu er hins vegar Halldór Armand áberandi sterkastur og varð ræðumaður Íslands nokkuð verðskuldað. Þetta var í raun sama keppnin hjá MH og fyrir sex árum þegar þeir kepptu við Versló og voru líka á móti frelsi einstaklingsins. Stuðningsmaðurinn þá varð líka ræðumaður Íslands en liðið tapaði.

Málflutningurinn hjá MH var um margt svipaður og síðast en þetta er nú ekki beint afstaða sem auðvelt er að verja að vera á móti frelsi einstaklingsins. En hinn dæmigerði Morfís-maður lítur nú yfirleitt svo á að ekki sé til það umræðuefni sem hann geti ekki verið hvort sem er með eða á móti. Virðingarverð afstaða en veldur því stundum að þessar keppnir missa veruleikatengsl.

Sú var tíðin að MR vann helst ekkert annað en Gettu betur. Þetta er að snúast við. Nördunum er að fækka og athyglissjúklingunum að fjölga!
|

1 Comments:

Blogger d said...

Takk fyrir síðast! og takk fyrir hjálpina kall. Þetta var svaaaaaaaakalegt!

3:53 AM  

Post a Comment

<< Home