Thursday, May 04, 2006

Engar öfgar

Skemmtilegt framtak að halda megrunarlausa daginn. Gott mótvægi. Líka ágætis dæmi um hvernig félög og hópar treysta tilvistargrundvöll sinn - núna hafa talsmenn megrunar og heilbrigðis fengið nýtt viðfangsefni, þ.e. að rökræða við þá sem finnst megrunaræðið komið út í öfgar. Báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls, megrun er góð en bara í hófi og öfgar í allar áttir eru slæmar.

Þannig getum við reglulega í framtíðinni fengið að heyra sitt hvorn pólinn; annars vegar fréttir af því hve við erum orðin feit og ofalin og hins vegar um oftrú okkar á megrúnarkúra. Við eigum að vera hraustleg og hugsa um línurnar en megum ekki verða heltekin af útlitinu og gleyma að rækta garðinn okkar.

Þetta er gott módel. Öfgar - hóf - öfgar. Þetta geta menn síðan rætt endalaust fram og til baka og komist að þeirri niðurstöðu að allir hafa eitthvað til síns máls, bara að þeir kunni sér hóf. Eru stjórnmál í dag ekki nokkurn veginn svona?

Kirkjan er farin að beina spjótum sínum að vændi og skorar á KSÍ að gera slíkt hið sama. Í fyrra gerðist ég svo frægur að sitja í rýnihóp á vegum Gallup ásamt ýmsum fleirum til að ræða um málefni þjóðkirkjunnar. Ein hugmyndin sem kom þar fram var að kirkjan ætti að vera óhrædd við að taka opinberlega afstöðu í siðferðismálum. Kannski er þetta skref í þá átt.

Ég allavega kann þessu vel, að kirkjan láti í sér heyra þegar um grundvallarmál er að ræða. Hún þarf kannski ekki að taka afstöðu til þess hvort það eigi að hlutafélagavæða RÚV eða setja vatnalög en það er allt í lagi að hún minni á sig þegar siðferðismál eru til umræðu (þarna komum við aftur að meðalhófinu...).

Það gerir kirkjuna sýnilegri í hugum fólks og ekki veitir af. Almættið þarf eins og allt annað að keppa við sjónvarp og Internet um athygli fólks og hefur ekki riðið feitum hesti úr þeirri rimmu. Ég held að ímynd hennar hafi orðið neikvæðari undanfarin ár, meðal annars vegna þess að það hefur lítið farið fyrir henni og helst að kirkjan komist í fréttir þegar giftingar samkynhneigðra eru til umræðu. Í þeirri umfjöllun lítur kirkjan út fyrir að vera íhaldsöm og svifasein. Ekki þótti mér bæta úr skák um daginn þegar biskup landsins talaði um að hjónabandinu yrði hent á ruslahaug sögunnar ef samkynhneigðir fengju að gifta sig.

Kirkjan er þannig að þar ættu allir að geta fundið skjól. Þannig varð það a.m.k. hjá frelsaranum sjálfum. Ætli hann hafi í raun viljað að samkynhneigðir fengju ekki að gifta sig? Hann gat allavega tekið glæpamenn í sátt. Svo var hann nú síðhærður sjálfur.
|

1 Comments:

Blogger Snorri said...

Sona í anda hófsemdar er ekki bezt að kirkjan sleppi því að tjá sig um siðferði? Hún er með ömurlegt siðferði.

Gott væri ef kirkjan ætti í díalóg við fólkið í landinu um hvaða lög væri heppilegt að spila í messum.

Mjög hófsamt, mjög Aristóteles.

4:32 AM  

Post a Comment

<< Home