Sunday, May 14, 2006

Framsókn...

Undanfarin misseri hafa verið Framsóknarflokknum erfið. Ekki bara að fylgið hafi hrunið af flokknum nánast allsstaðar á landinu, heldur virðist sem flokkurinn njóti ákaflega lítillar virðingar landsmanna. Miklar auglýsingar og tiltölulega afdráttarlítil stefna flokksins í flestum málum kunna að hafa áhrif þar á. Einnig kunna mikil völd, sem mörgum finnst ekki vera í samræmi við fylgi flokksins, kunna að vera hluti af skýringunni. Í þessari skemmtilegu greiningu á Framsóknarflokknum er talað um pólitíska tvíkynhneigð og eðlislægt stefnuleysi.

En hvaða nöfnum sem Framsóknarflokkurinn verður nefndur er ljóst að nýjasta útspil Framsóknarmanna á Ísafirði verður tæpast til þess fallið að þagga niður í gagnrýnisröddum í garð flokksins. Eftir að hafa verið í samstarfi við Sjálfstæðismenn í átta ár og stutt pólitískan bæjarstjóra Sjálfstæðismanna, Halldór Halldórsson, undanfarin fjögur ár, er nú komið annað hljóð í strokkinn hjá Framsókn á Ísafirði kortér fyrir kosningar. Skyndilega eru þeir til í að vinna með hverjum sem er og vilja frekar ópólitískan bæjarstjóra (sem hlýtur að gera út af við áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðismenn ef það kæmi á annað borð til greina).

Þessi óvæntu sinnaskipti í miðri baráttu eru út af fyrir sig nokkuð athyglisverð. En þau eru sérstakega athyglisverð í ljósi þess að Í-listinn, sameinað framboð annarra flokka á Ísafirði, er nú með meirihluta samkvæmt skoðanakönnunum. Og hvert er nú eitt helsta baráttumál Í-listans? Miðað við borgarafund NFS á Ísafirði um daginn leggur Í-listinn einmitt mikla áherslu á að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri. Tilviljun...?

Maður áttar sig ekki alltaf á Framsóknarmönnum. Flestir þeir sem taka þátt í stjórnmálum leggja mikla áherslu á að þeir séu þar til þess að berjast fyrir ákveðnum hugsjónum og breytingum en alls ekki til þess eins að ná völdum. Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn komi svona grímulaust fram með það markmið sitt að ná völdum, sama með hverjum er unnið eða hvaða málefni þarf að styðja. En Framsókn er líka einstök!