Sunday, May 21, 2006

Ýkt ömurlegur flokkur

Heldur finnst mér nú Ungir jafnaðarmenn vera slappir í kosningabaráttunni. Barátta þeirra gengur í stuttu máli ekki út á neitt annað en að dissa Sjálfstæðisflokkinn og það lætur nærri að þeir séu með Sjálfstæðismenn á heilanum. Á heimasíðunni þeirra er um það bil önnur hver færsla um Sjálfstæðisflokkinn og hvað hann sé ömurlegur og meðal annars löng grein um hvað heimasíða ungra sjálfstæðismanna sé þunn!

Þá var blásið til sérstaks blaðamannafundar um daginn sem var sérstaklega um unga Sjálfstæðismenn og stefnu þeirra og ekki má gleyma auglýsingaröðinni sem á að sýna einhvers konar holdgerving hægrimanna á Íslandi, fígúru sem þeir nefna Hjálmar Hannesson og á örugglega að slá öll vopn úr höndum Sjálfstæðisflokksins. Spurning hvort Hallgrímur Helgason hafi haft hönd í bagga við persónusköpunina, því líkt og Böddi í Roklandi bloggar þessi tilbúni karakter.

Annars er dáldið fyndið að sjá Hallgrím Helgason um þessar mundir. Hann er kominn í massíva kosningabaráttu - maðurinn sem hefur verið hvað duglegastur við að gagnrýna stjórnmálamenn og þeirra verk í gegnum tíðina. Merkilegt hvað makar geta haft góð áhrif á stjórnmálaskoðanir jafnvel gagnrýnustu manna. Sérstaklega fannst mér góð sena í Silfri Egils um daginn þegar Hallgrímur og fleiri gestir voru spurðir hvað þeim fyndist um slagorð Samfylkingarinnar - Einu sinni var Reykjavík smábær, nú er Reykjavík frábær. Flestir svöruðu því til að þeir hefðu fengið nettan kjánahroll þegar þeir heyrðu þetta, nema Hallgrímur sem taldi þetta vera mjög gott slagorð og stökk ekki í bros. Einhvern tíma hefði Hallgrímur tekið sig til og gert stólpagrín að þessu! Kannski samdi hann þetta sjálfur.

En aftur að Ungum jafnaðarmönnum. Það hefur stundum verið sagt að það sem sameini Samfylkingarfólk sé andúðin á Sjálfstæðisflokknum. Kannski eru Ungir jafnaðarmenn bara að taka forskot á sæluna þar sem þeir sjá fram á sigur Sjálfstæðismanna í borginni. Það virðist allavega líklegt ef miða má við skoðanakannanir, þó allt geti gerst.

En setjum nú svo að Ungum jafnaðarmönnum takist ætlunarverk sitt og nái að sýna borgarbúum að Sjálfstæðismenn séu nú upp til hópa bara hálfvondir og tilfinningalausir plebbar sem muni eyðlileggja leikskólana og senda konurnar á bak við eldavélina - hversu sannfærandi sigur yrði það fyrir Samfylkinguna? Fólk myndi sem sagt kjósa Samfylkinguna af því að Sjálfstæðismenn eru svo vondir, ekki af því að Samfylkingin sé svo góður kostur. Væri ekki nær að leggja áherslu á hvað Samfylkingin hefur fram að færa?

Það er oft góð regla þegar andstæðingurinn er gagnrýndur að taka út það besta og málefnalegasta í fari hans og deila á það. Það versta og ómálefnalegasta dæmir sig yfirleitt sjálft. Ungir jafnaðarmenn hafa einhvern veginn snúið þessu alveg á hvolf. Eflaust má finna menn eins og Hjálmar í röðum hægrimanna á Íslandi en líkar þeirra í hina áttina eru til í vinstriflokkunum á Íslandi eins og annars staðar. En svona er kosningabaráttan í dag - hún gengur út á stóran strætó, Hummer og hvað andstæðingurinn er bara ýkt ömurlegur...
|

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Heill og sæll Árni. E-ð er ég nú ekki alveg sammála þér. Var að tileinka skrifum þínum færslu á blogginu mínu. Fögnum saman á laugardaginn. Kveðjan, Maggi

9:08 AM  

Post a Comment

<< Home