Wednesday, May 17, 2006

Metnaðurinn

Fjölmiðlar sem hafa fjallað um stefnu Háskóla Íslands hafa nánast einróma talað um að markmið skólans sé metnaðarfullt. Það er meira að segja slíkur samhljómur um metnaðinn í HÍ að leiðarar Moggans og Fréttablaðsins voru með sömu fyrirsögnina þegar fjallað var um málið - „Metnaðarfullt markmið“.

Já, þetta er svo sannarlega metnaðarfullt markmið. Stefna Háskóla Íslands er hins vegar merkileg fyrir aðrar sakir en það eitt að vera jafngífurlega metnaðarfull og raun ber vitni, nefnilega þær að nú stígur Háskólinn fram með skýrar og mótaðar hugmyndir um framfarir sem ættu að geta dregið úr hátíðarblænum sem einkennir oft háskólaumræðuna og gert umræðuna raunhæfari og markvissari.

Það er líka margt athyglisvert í stefnunni sjálfri. Markmiðið um að fimmfalda fjölda doktorsnema hefur reyndar komið fram áður en í stefnunni er líka talað um að fjölga birtum greinum í fræðitímaritum, búa til stöðu prófessors á heimsmælikvarða, auka verulega við húsnæðiskost skólans, hefja starfsemi í Vísindagörðum árið 2007, fjölga kennurum miðað við nemendur, gera kennurum skylt að sækja kennslufræðinámskeið, gera auknar kröfur um námsframvindu nemenda og tryggja að skólinn geti innheimt gjöld fyrir sérþjónustu eins og innheimtu- og upptökupróf.

Þarna er líka talað um að búa til gæðamenningu í skólanum. Það kann að hljóma svoldið froðukennt en það skiptir máli. Skólamenning í HÍ er einhvern veginn ekki alveg til staðar. Alltof margir eru fjarlægir skólaumhverfinu – mæta kannski í tíma við og við en eru annars lítið á svæðinu. Skipulagið á háskólasvæðinu býður heldur ekki upp á mikið meira, nema heppnin sé með mönnum og þeir nái lesborði. Þetta er ekki beinlínis akademíustemningin. Það er enginn kjarni eða hjarta á háskólasvæðinu þar sem fólk hittist, fær sér að borða saman og spjallar. Þetta hefur allt saman áhrif. Margir líta á nám við HÍ eingöngu sem leið til að ná í gráðu og gera sig kláran fyrir vinnumarkaðinn. Það er skiljanlegt viðhorf en í skóla sem ætlar að vera á heimsmælikvarða gengur það ekki.

Ég veit ekki hvort markmið um „gæðamenningu“ lagi þetta en það er kannski skref í áttina. Skólinn kemst ekki á heimsmælikvarða við það eitt að skrifa örlítið fleiri tímaritsgreinar eða stunda annars konar lagfæringar á tölfræðinni heldur þarf hugarfarsbreytingu.

HÍ kemst ekki inn á topp 500 í heiminum í dag. Það talar sínu máli, hvað sem fólk segir. Það er stundum sagt að HÍ standi sig nú samt sem áður svo vel, sé svo góður skóli og íslenskir háskólanemendur fari nú oft í nám við virtustu skóla heims. En er það ekki ákveðin mótsögn að íslenskir skólar standi sig í ljósi þess að íslenskir nemendur fari og læri við virtustu skóla heims? Ættu íslenskir skólar ekki frekar að vera meðal þeirra virtustu í heimi í stað þess að íslenskir nemendur þurfi að fara í aðra skóla til að ná í gráður?