Tuesday, July 18, 2006

Stóri guli

Jæja – Strætó er kominn á dagskrá í þjóðmálaumræðunni. Þessu fagnar maður eins og ég, sem tek strætó nokkuð oft, jafnvel allt að 100 sinnum á ári og skipa mér þar á bekk með skólabörnum þessa lands ásamt öryrkjum, innflytjendum og þessum örfáu og kolbiluðu velferðarhippum sem taka strætó þó þeir séu með aldur og efni til að aka og reka eigin bíl.
Vegna uppbyggingar og samsetningar farþegahóps SVR hlýtur öll opinber umræða um málefni strætó að vera töluverðum takmörkunum háð af þeirri einföldu ástæðu að stjórnmála- og frammámenn þessa lands hafa trúlega ekki stigið upp í strætó í mörg ár og vita þar af leiðandi ekkert í sinn haus um hvað þeir eru að tala.

Vandi Strætó er tiltölulega augljós – það hefur nánast enginn áhuga á að taka hann. Svo einfalt er það nú. Alveg sama hve margar og tíðar ferðirnar verða og hve mikið menn láta sig dreyma um að byggja upp einhvers konar skandinavískt kerfi í almenningssamgöngum, þá mun það ekki gerast. Á meðan velsældin er eins og raun ber vitni og gatnakerfið annar bílatraffíkinni þokkalega er ég hræddur um að sjálfrennireiðarnar hafi vinninginn.

Þess vegna missi ég ekki svefn yfir þessum breytingum hjá Strætó. Eins og forsvarsmenn fyrirtækisins hafa lýst, þá stefndi allt í að kostnaðurinn í ár færi mörg hundruð milljónum fram úr áætlun. Það telst tæplega góð latína á tímum þenslu og verðbólgu og eitthvað varð að gera. Þar að auki er verið að steypa peningum í þetta kerfi nú þegar – litlar 1500 milljónir lagðar í fyrirtækið árlega af almannafé.

En sumum finnst auðvitað að það eigi helst ekki að vera nein takmörk á því hvert þjónustustigið eigi að vera í svona kerfi. Helst eigi vagnarnir að vera á 4-5 mínútna fresti. Sérstaklega hef ég gaman af svona hoppýfarþegum, sem fara einu sinni á ári í strætó, helst á miðju sumri þegar vel viðrar. Á veturna aka þeir svo gjarnan um í einkabílum sínum og láta þægilegan miðstöðvarhitann ylja sér á meðan almennir notendur krókna úr kulda við að bíða eftir vagninum.

Bakþankahöfundur Fréttablaðsins, Þórhildur Elín Elínardóttir, er rakið dæmi. Í gær sagði hún frá því í dálki sínum að til að fá „tilbreytingu“ hafi hún ákveðið að ferðast með strætó. Sú ævintýramennska endaði að vísu með þvílíkum ósköpum að annað eins hefur ekki heyrst lengi. Ekki nóg með að hún hafi misst af vagninum og þurft að bíða heillengi eftir þeim næsta, þá var enginn búnaður til að gera henni kleift að aka barnavagninum sínum beint upp í strætó þegar hann loksins kom. Þetta gekk svo langt að vagnstjórinn þurfti að hjálpa henni við það! Og það var ekki nóg með þessar hremmingar, því við tók heillöng ganga eftir að hún fór úr strætónum til að komast á leiðarenda. Handritið að bíómyndinni um þessa átakasögu hlýtur að vera í vinnslu.

Þórhildur lýkur dálki sínum á almennari nótum: „Þó ferðalagið hafi auðvitað verið dásamleg æfing í þolinmæði og útsjónarsemi fannst mér dularfullt að það þyrfti að vera svona erfitt. Minnti meira að segja almenningssamgöngur í sumum löndum byggðust á að vera aðgengilegar fyrir alla. Að yfirvöld víða legðu töluvert í púkkið til að draga úr umferðarþunga, mengun og þenslu. Þetta rifjaðist enn betur upp á ferðalagi í Kaupmannahöfn á dögunum þar sem reyndist bráðauðvelt að ferðast vítt og breitt með börn í kerrum. Hvorki þurfti að bíða né burðast. Sífelldur niðurskurður hjá Strætó er eins og veitningahús sem sér það eina ráð í krreppunni að bjóða upp á æ verri matseðil. Sú þróun endar sem súpueldhús. Þar er maturinn vondur, sjaldan og ókeypis. Þangað leita bara þeir sem eiga engan annan kost.“

Já, það er erfitt að gera sumum til geðs.

Það er auðvitað allt annað að halda úti almenningssamgöngum í milljón manna borg en 300 þúsund manna borg sem var ekki byggð upp með neitt slíkt í huga. Af hverju skömmumst við okkar svona fyrir að kjósa einkabílinn umfram strætó? Er það ekki einmitt bara jákvætt? Hvers vegna setur fólk þetta í búning einhvers konar hneykslis – jafnvel þegar við eyðum alveg fullt af pening í strætó?! Nú hyllir meira að segja undir vetnisvæðingu bílaflotans, þannig að samviskubitið yfir menguninni þarf ekki að plaga okkur til eilífðarnóns. Mig allavega langar að eiga bíl og skammast mín ekkert fyrir það.
|

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Kannski ef stjórnmálamönnum tækist að beisla völd veðurguðanna færu Íslendingar upp til hópa að hrúgast í strætó.

Ekki deginum fyrr.

9:19 AM  
Anonymous Anonymous said...

really? do 300.000 people live in Reikjavik?

9:42 AM  
Blogger Halli said...

Nei Árni.

Það mætti halda að þú værir á leið í núv. borgarstjórn.

Alveg er ég viss um að mörg okkar myndum frekar halla okkur aftur og lesa góða bók í strætó, föst í síðdegistraffíkinni. Sjálfur væri ég til í að geta tekið strætó til og frá bænum á fimmtudagskveldi, ef hugurinn girnist eins og 2, þrjá bjóra. Ef það munaði ekki svona litlu á því að reka bíl og taka strætó.

Um leið og vinur okkar G. Marteinn lækkar fargjöldin, tekur upp ódýr námsmannakort og fleira að evrópskri fyrirmynd, flykkjumst við í strætó. Púff! - Hallinn hverfur, vagnarnir fyllast og við getum ráðið 50 pólverja til að keyra á 10 mín. fresti ;)


kv

12:43 PM  
Anonymous Anonymous said...

I really enjoyed looking at your site, I found it very helpful indeed, keep up the good work.
»

9:44 PM  

Post a Comment

<< Home