Tuesday, July 04, 2006

Jæja...

Ætli það sé nú ekki kominn tími á nokkrar línur...

Ýmislegt hefur á dagana drifið að undanförnu og ýmislegt breyst. Kannski að maður láti dramatískar lýsingar eiga sig, enda tók ég einhvern tíma ákvörðun um að þetta blogg ætti ekki að vera eitt af þessum tilfinningavellubloggum. Þannig að þið fáið ekkert þannig frá mér.

Morgunblaðið er flutt og ég keyri því alla leið upp að Rauðavatni til að komast í vinnuna. Þetta er þó ekki jafnslæmt og maður myndi halda, aksturstíminn er nær 15 mínútum en 30 eins og ég hafði haldið. Skemmtilega öfug hlutföll við orkuverð Landsvirkjunar, sem á einmitt að vera nær 30 dollurum en 15 (haha...). Ég verð reyndar að taka fram að ég ek þessa leið, þ.e. úr Vesturbænum og uppeftir yfirleitt þegar umferðin er ekki mikil. Þetta tekur kannski lengri tíma ef maður lendir í síðdegistraffíkinni. Kannski á ég bara eftir að sitja fastur heillengi. Aldrei að vita nema maður eigi eftir að taka svona Falling Down móment eins og Michael Douglas gerði á sínum tíma. Ganga út úr bílnum í Ártúnsbrekkunni og biðja um almennilegan hamborgara á Burger King...

Þetta var annars meiri leikurinn í dag á HM. Þýski björninn laut í gras á eigin heimavelli. Manni fannst Ítalirnir eiga þetta skilið, þeir höfðu verið beittari og skotið í bæði slá og stöng. En þýska liðið var þrusugott í ár og það bjuggust flestir við þeim í úrslitunum. Það virðist líka hafa verið komin upp stemning hjá hinni þunglyndu þjóð – menn á borð við Arthur Björgvin Bollason farnir að finna þýsku þjóðarsálina taka kipp, sbr. grein sem hann skrifaði í Moggann.

Í mér er annars farið að slá á ný alveg bullandi franskt hjarta. Hvað er hægt annað þegar Zidane, Vieira og Henry spila allir eins og englar? Þetta er alger músík. Ég man að ég byrjaði að halda upp á Zidane á EM ’96 þar sem hann reyndar olli miklum vonbrigðum. En tveimur árum síðar kom hann, sá og sigraði. Kórónaði þetta allt með því að setja tvö mörk á Brassana.

Yfir í annað. Svoldið skemmtilegt hvernig veruleikinn og skynjun fólks á veruleikanum getur stundum verið sitt hvor hluturinn í þjóðmálunum. Þetta kristallast í því sem Jón Sigurðsson, nýr viðskipta- og iðnaðarráðherra, segir nú í fjölmiðlum um að engin stóriðjustefna hafi verið rekin hér á landi síðan árið 2003. Formlega og stjórnsýslulega séð er þetta án efa rétt. Eflaust hafa verið gerðar ýmsar breytingar á skipulagi þessara mála í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. En hver nennir að kynna sér lýsingar á innra skipulagi iðnaðarráðuneytisins? Í augum alls almennings hefur verið rekin grimm stóriðjustefna undanfarin ár. Hvað hafa menn annars verið að ræða í heitu pottunum og á kaffihúsunum? Þetta hefur brunnið á fólki. Var þetta allt saman misskilningur? Það væru nú tíðindi!

Nú skal ekki útiloka að einhverjir hafi lagt sig fram við að kynna sér stjórnsýslulega uppbyggingu stóriðjumála hér á landi en ætli það séu ekki fleiri sem muna eftir Valgerði í New York að hitta einn af toppunum í Alcoa á meðan Húsvíkingar biðu með öndina í hálsinum á Álvöku? Muna ekki fleiri eftir myndum og fréttaskeiðum þar sem Valgerður er sýnd með vinnuhjálm á virkjanasvæðum? Ætli það séu ekki fleiri sem hafi rennt sér í gegnum Draumalandið en vef iðnaðarráðuneytisins?

En yfirlýsingar Jóns eru þó ákveðin tíðindi. Þær eru auðvitað fyrst og fremst ákveðin pólitík og sýna að sóknin er hafin. Framsókn hafa kveikt á því sem er að gerast og þeir eru farnir að taka eftir þeirri vofu umhverfisverndar sem gengur nú laus um götur landsins. Umhverfisráðherra vísar t.d. í vilja almennings og segist ætla að friðlýsa Þjórsárverin.

Og ég held að Jón Sigurðsson eigi eftir að stimpla sig nokkuð vel inn hjá þjóðinni. Hann ekki bara er alnafni sjálfstæðishetjunnar heldur talar hann eins og kennari – sem hann og var – og virðist vera vel með á nótunum gagnvart fjölmiðlum – enda gamall ritstjóri. Hann talar af þunga landsföðurins – hinn brúnaþungi maður sem er að leggja upp í leiðangur til að bjarga Framsóknarflokknum.


|

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Greets to the webmaster of this wonderful site! Keep up the good work. Thanks.
»

9:44 PM  
Anonymous Anonymous said...

Really amazing! Useful information. All the best.
»

5:23 AM  
Anonymous Anonymous said...

Great site lots of usefull infomation here.
»

10:03 AM  

Post a Comment

<< Home