Misskilningur Líndals og Rúv?
Hún var sérstök fréttin sem Rúv birti í kvöld sem fyrstu frétt um að Árni Johnsen væri ekki kjörgengur á þing. Þar er byggt á Sigurði Líndal og ummælum hans í fréttum Sjónvarpsins um málið. Í fréttinni á vef Rúv segir: "Árni Johnsen þarf að fá uppreisn æru frá forseta Íslands hyggist hann gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum."
Þetta er, held ég, ákveðinn misskilningur. Það er nefnilega ekki skorið úr um kjörgengi manna fyrir kosningar, heldur eftir þær. Sigurður Líndal segir í fréttinni að sveitastjórnir skeri úr um hvort viðkomandi sé kjörgengur. En séu ákvæði kosningalaganna um kjörgengisskilyrði skoðuð kemur annað í ljós:
4. gr. Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá sem kosningarrétt á skv. 1. gr. og hefur óflekkað mannorð. Hæstaréttardómarar og umboðsmaður Alþingis eru þó ekki kjörgengir.
5. gr. Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.
36. gr. Ekki er nauðsynlegt að kjörgengi frambjóðenda sé sannað fyrir yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn, en Alþingi úrskurðar um kjörgengi þeirra sem kosnir eru jafnframt því sem það úrskurðar um hvort nýkosnir þingmenn séu að öðru leyti löglega framboðnir og kosnir.
Síðasta greinin, þ.e. 36. gr., er lykilatriði í málinu. Alþingi er úrskurðaraðili í málinu og þar af leiðandi á mat á hugtakinu "óflekkað mannorð" og eins hvaða verk séu "svívirðileg að almenningsáliti" undir þingið. Meirihluti Alþingis kýs um þetta og sker úr um málið.
Sigurður Líndal sagði hins vegar í fréttum í kvöld: "Þeir sem meta þetta eru þeir sem semja kjörskrár, þ.e.a.s. sveitastjórnir..."
Þetta rímar illa við áðurnefnda 36. gr. laganna.
Í lok fréttarinnar á Rúv er Sigurður spurður hvort kjörgengi Árna Johnsen velti á því hvort hann hafi fengið uppreist æru frá dómsmálaráðuneytinu. Þessu svarar Sigurður svo til:
"Já... já,já. Mér sýnist nú að vísu kannski eitthvað þröngt um það en ég skal ekkert segja um það á þessu stigi málsins, það er ekki það langt síðan dómur gekk."
Á þessum óljósu ummælum Sigurðar, sem virðast í þokkabót byggð á misskilningi, byggir Rúv þá fyrirsögn að Árni sé ekki kjörgengur! Hvort sem það eru sveitarstjórnir eða Alþingi sem meta kjörgengi, ætti allavega að vera ljóst að Árni væri kjörgengur þar til annað kemur í ljós og að úrskurða þyrfti sérstaklega um að hann væri ekki kjörgengur. Það hefur enn ekki gerst.
2 Comments:
Heyrði þetta viðtal við Líndal líka, held hann hafi verið nývaknaður eða vankaður maðurinn, sem venjulega er búinn að fletta því upp í bók eða huga sér áður en hann svarar svona spurningum.
Halli
Cool blog, interesting information... Keep it UP »
Post a Comment
<< Home