Saturday, October 14, 2006

Góður Gorbachev

Var svo heppinn að komast yfir miða á fyrirlestur Mikhail Gorbachev í Háskólabíói um daginn og það var áhugavert að hlusta á þennan fyrrverandi leiðtoga Sovetríkjanna, sem maður man eftir úr fréttum á sínum tíma sem manninum með rauða blettinn á skallanum. Gott ef ég hafi ekki, þegar ég var fimm ára, teiknað rauðan blett á ennið á mér til að líkjast kappanum.

En það þarf kannski ekki að koma á óvart að maður eins og Gorbachev sé áhugaverður fyrirlesari. Hann leiddi jú heilt heimsveldi og missti það undan sér líka, ef svo má að orði komast.

Eins og flestir vita kom Gorbachev hingað í tilefni af 20 ár eru liðin frá því að leiðtogafundurinn var haldinn í Höfða árið 1986 og hann eyddi stærstum hluta ræðu sinnar í að ræða aðdraganda fundarins, fundinn sjálfan og áhrif hans. Það var í sjálfu sér áhugavert en ég verð reyndar að
viðurkenna að ég var það ungur þegar þessi fundur fór fram að ég tengdi kannski ekki nægilega vel við þessa frásögn. Ég var meira í því á sínum tíma að teikna rauðan blett á ennið á mér en að fylgjast með gangi mála í Höfða. Það var samt skemmtilegt þegar hann rifjaði upp að í miðju kalda stríðinu hafi það einhvern tíma gerst að á tölvuskjám í bandarískri herstöð komu fram nokkrir deplar sem virtustu stefna frá Sovétríkjunum beint yfir til Bandaríkjanna. Það varð uppi fótur og fit og menn létu vita að nú væru kjarnorkusprengjurnar hugsanlega á leiðinni – nú væri þetta bara allt saman að bresta á. Þegar betur var að gáð, var þetta hins vegar hópur af gæsum á leiðinni yfir hafið, nærri því búnar að setja þriðju heimsstyrjöldina af stað.

Eftir að Gorbachev hafði flutt erindið sitt opnaði hann ásamt túlkinum sínum fyrir spurningar. Svo ég skjóti aðeins inn í, þá var túlkurinn ekki síður áhugaverður en Gorbi sjálfur. Hann hafði túlkað fyrir Gorbachev í meira en 20 ár, var m.a. með honum í Höfða á sínum tíma, og var greinilega alveg þaulvanur að endursegja það sem rann upp úr meistaranum. Þar fyrir utan leit hann út, eins og einhver orðaði það, fyrir að geta kyrkt mann með berum höndum á alveg í hæsta lagi 8 sekúndum, því hann var nauðasköllóttur með skógarhöggsmannahendur og eins og klipptur út úr hlutverki KBG-manns í James Bond frá níunda áratugnum. Án þess að ég viti það hét hann örugglega Oleg.

En eins og ég sagði þá fór þetta að verða áhugavert þegar Gorbachev svaraði spurningum fundargesta. Hann gjörþekkir þetta og er greinilega vel með á nótunum í heimsmálunum enn þá þó hann sé orðinn 75 ára. Ég hafði sérstaklega gaman af því þegar hann í einu svarinu fór á svona fimm mínútum bara yfir heimssviðið eins og það leggur sig. Bandaríkin – superpower en þjást af winnerscomplex, Evrópa er að koma upp, Indland og Kína – ekki vanmeta þau, Rússland – talar með æ sjálfstæðari röddu á alþjóðavettvangi. Svo voru það eru þrjú mál sem þarf að taka á í heiminum; fátækt, öryggi og hlýnun jarðar. Takk fyrir.

Hann fékk spurningu um morðið á blaðakonunni Önnu Politkovskayu og hvernig aðkoma hans að rússneskum fjölmiðlamarkaði væri en Gorbachev á víst hlut í blaðinu sem Anna vann á. Hann tók sig þá til og rifjaði upp áhrif glasnost, sem fól m.a. í sér að fjölmiðlum var veitt aukið frelsi – til að sýna heiminn og samfélagið eins og það í raun er. Þannig fengu íbúar Sovétríkjanna skyndilega tækifæri til að kynnast því í fjölmiðlum hvernig ástandið í landinu væri, á miklu ítarlegri og skýrari hátt en þeim hafði staðið til boða áður. Ástand sem var án efa ekki alltaf fallegt. Og það sem var kannski eftirminnilegast var þegar Gorbachev tók fram að honum fyndist ekkert ólíklegt að hefði fjölmiðlunum ekki verið veitt þetta frelsi og svigrúm, hefði hann sennilega setið mun lengur á valdastól. Nú veit ég ekki hvað er í til í þessu, en þetta er í það minnsta stór fórn að færa fyrir fjölmiðlafrelsi – þinn eiginn pólitíski ferill. Gorbachev tók það svo fram að morðið á Politkovskayu væri að sjálfsögðu högg fyrir lýðræðisþróunina í Rússlandi.

Hann var einnig spurður út í samskipti sín og Borísar Jeltsín, sem má segja að hafa rænt völdum frá Gorbachev árið 1991. Hann vandaði Jeltsín ekki kveðjurnar, sagði að þrátt fyrir að hann hefði haft margt gott að bera, væri hann valdagráðugur og þráði völd meira en nokkuð annað – eða eins og Gorbachev orðaði það sjálfur, hann þráir völd meira en karlmenn þrá konur. Gorbachev var hins vegar mjög varkár í tali um Pútin og sagði eiginlega ekkert um hann.

Í stuttu máli þá var afar áhugavert að sjá þennan mann. Það er auðvelt að sitja hér í velferðarríkidæminu Íslandi, langt frá átökum, myrkaverkum og spillingu heimsins og tjá sig um gang mála. Einstöku sinnum hittir maður þó eða fær tækifæri til að hlýða á menn sem hafa sjálfir verið í þeirri stöðu að ákvarðanir þeirra höfðu áhrif á gang sögunnar og líf og framtíð mörg hundruð milljóna manns. Mikhail Gorbachev er einn þessara manna. Hann reyndi að koma á lýðræðisumbótum í alræðisríki. Hann tók við völdum í heilu heimsveldi og horfði á það liðast í sundur undir sinni stjórn. Hann hafði þó dómgreind til að átta sig á því að sú þróun var jákvæð og myndi skapa skilyrði til betra lífs fyrir milljónir manna. Sumir segja að Gorbachev hafi raunar ekkert getað gert í þessu sjálfur – þróunin hafi einfaldlega verið á þessa leið og lítið við því að gera. Svo má vel vera, en hann leyfði þessari þróun að eiga sér stað og virti niðurstöður hennar. Gorbachev rifjaði það upp á fundinum að þegar hann var í háskóla að læra lög fjallaði hann lokaverkefnið hans um lýðræði. Mörgum áratugum síðar komst hann í þá stöðu að leyfa kröftum lýðræðisins að virka og gerði það. Það ber að virða.
|

6 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Shit hvað það er fyndið að þú hafir teiknað blett á ennið á þér til að líkjast Gorbachev. Flest fimm ára börn vilja vera súperman eða batman en ekki Árni. Hann vildi vera sovéskur miðaldra stjórnmálamaður. Speees

7:11 AM  
Blogger Árni said...

Bíddu þar til ég fer að lýsa því hvernig ég reyndi að líkjast Margaret Thatcher... :)

1:39 PM  
Anonymous Anonymous said...

Árni Helgason í dragt

- ÖPR

2:13 PM  
Blogger Árni said...

Þokkalega getnaðarlegt...

4:18 PM  
Blogger d said...

Önundur hefur rænt mig svefni varanlega með því að draga upp þessa mynd fyrir hugskotssjónum mínum. Kann ég honum bölbænir fyrir.

12:47 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég get kyrkt mann með berum höndum á 3 sekúndum. En ég er líka í júdó.

Halla

4:32 AM  

Post a Comment

<< Home