Tuesday, October 10, 2006

Matarkarfan lækkar

Það er sterkt hjá ríkisstjórninni að stíga fram með matarverðstillögurnar núna. Það þarf nú enginn að halda því fram að tímasetningin – kosningavetur – sé helber tilviljun, en það er nú oft galdurinn við kosningar og aðdraganda þeirra, að þá fara stjórnmálamenn að láta verða af allskonar hlutum sem þeir höfðu stungið ofan í skúffu áður. Þetta sýnir líka ákveðinn styrk af hálfu Framsóknarflokksins sem treystir auðvitað mjög á stuðning bænda að koma þessu máli í gegn.

En máttur kosninga getur verið mikill. Ég man alltaf eftir því þegar ég sat í Stúdentaráði og við börðumst gegn ákvörðun sem Reykjavíkurborg tók um að breyta gjaldskrá leikskólanna í borginni, þannig að stúdentar sem áttu útivinnandi maka færðust upp um flokk og þurftu að borga tugi þúsunda til viðbótar á ári í leikskólakostnað. Við stóðum fyrir undirskriftasöfnun út af þessu, skrifuðum í blöðin og formaður SHÍ gekk þar að auki á fund borgarstjóra til að ræða þetta við hann. Allt kom þó fyrir ekki – ákvörðunin stóð, þótt gildistöku hennar hafi verið frestað um nokkra mánuði og hún látin taka gildi í þrepum. Svo hreyfðist ekkert í málinu frekar og útlit fyrir að málið væri dautt –allt þar til að R-listinn sprakk með látum síðasta sumar og flokkarnir sem stóðu að Reykjavíkurlistanum sáu fram á harða kosningabaráttu næstu mánuðina. Þá lét Alfreð Þorsteinsson, Framsóknarmaður, sig ekki muna um að fella þessa hækkun niður á svipstundu og láta þess getið að svona kæmu menn ekki fram við stúdenta.

Undirskriftir, viðtöl, greinaskrif og önnur barátta skiluðu sem sagt litlu sem engu en kosningastress í stjórnmálamanni – það hreyfir fjöll. Spurning um að hafa kosningar oftar?
|

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þvílíkt er ég sammála þér, þetta er eitt aðal pirringsefnið mitt ásamt því hve lokið á kókómalti er alltaf laust;)

Það ættu að vera kostningar daglega, þá myndi kannski eitthvað gerast á þessu landi okkar.

4:19 AM  

Post a Comment

<< Home