Friday, November 24, 2006

Dagur réttlætis fyrir íslenska veitingastaði

Maður getur ekki annað en dáðst að þrautseigjunni í þessum íslenska glæpahauk sem var dæmdur í héraðsdómi í gær. Brot hans eru alls orðin 49 á nokkurra ára tímabili. Þetta illfygli hefur þó einkum einbeitt sér að einni tegund afbrota, þ.e. að borða á veitingahúsum án þess að borga fyrir. Eða eins og héraðsdómarinn bendir á:

Er nærri að telja að ákærði sé síbrotamaður að þessu leyti og ljóst að hann færist heldur í aukana fremur en hitt...
Síbrotamaður í veitingahúsasvindli! Það er freistandi að pæla aðeins í tölfræðinni. Maðurinn er dæmdur fyrir 49 brot á þessu tímabili - þ.e. 49 skipti þar sem hann hefur beinlínis verið staðinn að verki við að borða á veitingastað án þess að borga fyrir. Á móti hljóta að vera talsvert mörg skipti þar sem þetta hefur tekist hjá honum, þ.e. að hann hafi sleppt því að borga án þess að það hafi komist upp. Nú þekki ég reyndar ekki tölfræðina í þessum bransa - en hver ætli sé stuðullinn á þessum brotum? Þrjú skipti fyrir hvert eitt sem hann er tekinn? Þetta hlýtur að minnsta kosti að vera nokkuð arðbært, því annars hefði hann væntanlega ekki stundað þetta svona grimmt. Ætli það sé ekki nokkuð varlega áætlað að það hafi kannski verið nokkur hundruð skipti sem hann hefur borðað án þess að borga.

Þessi matgæðingur fékk líka makleg málagjöld - 12 mánuða fangelsi og ekki skilorðsbundið. Ætli hann verði látinn borga fyrir matinn í steininum?