Monday, November 13, 2006

Heildstæð samlögunarstefna og Dorrit

Egill Helgason sagði í Silfrinu að Margrét Sverrisdóttir hefði ekki viljað koma fram í þættinum með Jóni Magnússyni, lögmanni og bróður. Það finnst mér athyglisvert. Steingrímur Sævarr benti á það um daginn á fjölmiðli sínum að í grein Margrétar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu væri hún í raun að afneita málflutningi Jóns þegar hún sagði að þeir sem mismuna fólki út frá trúarbrögðum ættu ekki erindi í flokkinn.

Eiríkur Bergmann lýsti þessu hins vegar skýrt og skorinort - við þurfum heildstæða samlögunarstefnu. Þetta er vandinn. Þeir sem hafa velt þessum málum fyrir sér átta sig á því að þetta eru flókin mál og engar heildarlausnir í boði. Fyrir vikið hljóma þeir froðukenndir á meðan Sigurjón Þórðarson, Jón Magnússon og Magnús Þór tala um að 1. maí hafi verið svartur dagur í sögu landsins. Þeir smætta umræðuna og einfalda til að ná í atkvæði og spila sig í þokkabót sem píslarvætti og fórnarlömb. Enn sem komið er hef ég ekki heyrt neinar áþreifanlegar lausnir frá þeim í þessum málum - heldur bara talað um að þetta sé vandamál.

Friðbjörn Orri kom annars sterkur í Silfrið. Þetta er auðvitað samofið uppgangi og kraftmiklu samfélagi. En Jón Magnússon toppaði þetta með því að vitna í ummæli Dorritar um að það ætti ekki hver sem er að fá að verða Íslendingur. Ætli Dorrit kjósi Frjálslynda í vor?
|

1 Comments:

Blogger Halli said...

Bergmaðurinn var nokkuð sterkur og það var áhugavert að geta kinkað kolli þegar Friðbjörn talaði.

Eiríkur kom með það sem beðið hefur verið eftir - tillögur til úrbóta fyrir íslendinga nýja og gamla (aðrar en þær að skrúfa fyrir einhvern ímyndaðan foss af útlendingum).

En Egill fannst mér frekar lélegur, var alltaf grípandi frammí fyrir Eiríki, hlæjandi að honum og segja "já er það ekki" þegar Jón og Sigurjón töluðu.
Ég held að Egill kjósi Frjálslynda í vor...

6:13 AM  

Post a Comment

<< Home