Sunday, October 22, 2006

Halldór sker hval

Hvalveiðarnar eru núna komnar á fullt. Það er eins og sogast 20 ár aftur í þjóðmálaumræðuna – hvalveiðar, leyniþjónusta og hleranir á vinstri mönnum eru mál málanna núna. Ég skrifaði pistil um málið á Deigluna um daginn og eins og fram kemur þar þá er ég hlynntur því að taka þessar veiðar upp aftur.

En manni var nú öllum lokið við að sjá fréttirnar í kvöld frá hvalstöðinni. Fjöldi manns fagnaði fyrsta langreyðinum með því að mæta niður í stöð og fylgjast með. Svo biðu menn ekki boðanna heldur drógu fram hokkíkylfuhnífana, sem af útlitinu að dæma voru alveg örugglega smíðaðir töluvert áður en hokkíkylfan var fundin upp, og hófu skurðinn. Sérstaklega fór þar fremstur í flokki Halldór Blöndal, formaður utanríkismálanefndar og skar hann hval af miklum móð.

Þetta var auðvitað tekið upp í erlendum fréttum, þar sem ákvörðunin um að leyfa aftur hvalveiðar í atvinnuskyni hefur verið til umfjöllunar. Það var látið fylgja með í framandi tón í einni fréttinni að þarna væri nú formaður utanríkismálanefndar Alþingis mættur í hvalskurðinn. Svo mátti sjá í ítarlegu myndskeiði hvernig langreyðurinn var skorinn upp og innyflin flæddu út. Svo var látið fylgja með að langreyðir væru í útrýmingarhættu. Þetta er auðvitað alveg mögnuð fréttamennska.

Rannsóknir benda til að það séu um 25 þúsund langreyðar í stofninum við Ísland og við ætlum að veiða 9. En samt eru þeir nú í útrýmingarhættu samkvæmt fréttaflutningi. Svo er látið fylgja með myndskeið af einu dýrinu sundurskornu.

Maður veltir fyrir sér hvernig því yrði tekið í frétt um landbúnaðarmál að þar væri sýnt sundurskorin rolla, helst þannig að innyflin sæust vel. Svo myndi því vera fleygt fram í leiðinni að rollur væru í útrýmingarhættu í heiminum. Svo mættu áhorfendur bara draga eigin ályktanir…

Það virðist því vera að erlendir fjölmiðlir hyggist matreiða þetta með sínum hætti eins og við var kannski að búast. Og í því ljósi fannst mér það óheppilegt hvernig staðið var að þessu í Hvalfirði, sérstaklega í ljósi þess að menn ættu að vita undir hvílíku nálarauga þessi mál eru í heimspressunni. Þó við séum veiðiþjóð og að hvalir séu skornir eins og allur annar afli sem kemur á land, er ekki hægt að vera með hvaða atriði sem er í boði fyrir fjölmiðla.

Samsærið með strætó

Það berast reglulega af því fréttir núna að undanförnu að farþegum í strætó hafi fjölgað gríðarlega. Þetta er í sjálfu sér hið besta mál. En ég tók eftir því um daginn þegar ég var í strætó að þar nota sennilega flestir farþega af yngri kynslóðinni svonefnd skólakort, sem eru ólík Grænu og Rauðu kortunum í strætó að því leyti að þau eru smartkort sem eru borin upp að sérstökum lesurum sem komið hefur verið fyrir í vögunum.

Þannig er hægt að skrá hvert skipti sem slíkt kort er notað. Það er hins vegar ekki hægt varðandi græna eða rauða kortið, sem þessir hópar hafa trúlega notað mikið og gera sjálfsagt enn. En ég fór að velta þessu fyrir mér í tengslum við frásagnir af fjölgunum strætófarþega – er það í raun fjölgun eða er ekki bara orðið auðveldara að telja farþegana? Nú þarf ekki lengur að slumpa á eða áætla fjöldann í jafnmiklu mæli og áður, þannig að talningar hljóta að verða nákvæmari.

Og spurningin er þá hvort farþegum sé í raun að fjölga eða hvort þeim hafi kannski ekki fjölgað en vegna tilkomu rafrænnar skráningar á komu farþega gangi betur að telja þá?