Wednesday, November 15, 2006

Ríkisvæðing stjórnmálanna?

Það gætu verið stórtíðindi á leiðinni í umræðunni um fjármál flokkanna. Nefnd sem Halldór Ásgrímsson skipaði á sínum tíma til að fara yfir þessi mál er langt komin með sína vinnu. Af þessari frétt Rúv að dæma er jafnvel mögulegt að það líti dagsins ljós frumvarp á næstu dögum.

Sú leið sem farin verður, sé þessi frétt sönn, er að auka framlög ríkisins til stjórnmálaflokka en setja í staðinn hámark á framlög til flokkanna. Með öðrum orðum er verið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana. Er það réttlætanlegt að skattgreiðendur fjármagni starfsemi, þ.m.t. kosningabaráttur, stjórnmálaflokkanna? Eigum við að greiða fyrir auglýsingaherferðir Framsóknarflokksins úr sameiginlegum sjóðum landsmanna? Það er allavega umhugsunarvert, þótt aðrar leiðir við fjármögnun flokka séu langt í frá gallalausar.

En hvað telst til stjórnmálaflokka? Þyrfti félagsskapur eins og t.d. Framtíðarlandið eða Frjálshyggjufélagið, sem hafa bæði lýst yfir ákveðnum áhuga á að bjóða fram til Alþingis að gefa upp framlög til sín? Eða væri það bara um leið og þau næðu manni á þing? En ættu slík félög þá engan rétt á styrkjum þangað til? Kannski verður þetta tæklað í væntanlegu frumvarpi.

Hér má að gamni sjá eitt þaulframlagðasta frumvarp þingsins, frá Jóhönnu Sigurðardóttur um lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Hún lagði þetta fram allavega á 6 þingum í röð, í nafni ýmissa flokka með ýmsum meðflutningsmönnum, en það dó alltaf. Aldrei að vita nema hennar tími komi eftir allt saman.
|

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Sæll.

Ríkið hefur náttúrulega styrkt stjórnmálaflokkanna lengi en eins og þú sjálfur segir þá stendur til að auka framlög ríkisins til stjórnmálaflokka og það verður líklega veruleg hækkun. Ekki nema furða að Vefþjóðviljinn sé á móti tillögum sem þessum, enda sér vefritið svona nokkuð sem greiðslu skattgreiðenda fyrir samtryggingarkerfi stjórnmálamanna.

Varðandi það hvaða skilyrði félög þurfa að uppfylla þá verður líklega notast við svipað kerfi og nú er. Í 6. gr. fjárlaga 2007 er fjármálaráðherra heimilað að gera ýmsa hluti. Í lið 7.5 þeirrar greinar segir:
"Að styrkja stjórnmálaflokka samkvæmt umsóknum, í hlutfalli við atkvæðamagn þeirra, enda hafi þeir hlotið a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum,..."

10:45 AM  

Post a Comment

<< Home