Saturday, October 14, 2006

Gasstöðin gamla við Hlemm

Ég tek stöku sinnum strætó og þá jafnvel alla leið héðan vestur úr bæ upp í Hádegismóa í Árbæ – ferð sem tekur um klukkutíma í það heila að fara. Það mætti auðvitað hafa langt mál um það óréttlæti heimsins að hér þurfi maður heilan klukkutíma til að komast milli bæjarhluta en ég held ég láti það eiga sig af þremur ástæðum - það er leiðinlegt að heyra fólk tala um hvað strætókerfið sé lélegt, það er algert offramboð af fólki sem finnst strætókerfið lélegt og í þriðja lagi vegna þess að nú á að endurvekja leið S5 sem fer einmitt í Árbæinn og vandamál mín við að komast upp í Árbæ eru þar af leiðandi úr sögunni. Þar að auki er strætókerfið ekki jafnlélegt og flestir vilja meina. En nóg um það.

Það sem ég er að velta fyrir mér er Hlemmur. Hlemmur – þetta orð og þessi staður hefur verið í hausnum á mér síðan ég var svona sex ára og var látinn taka strætó heiman frá mér yfir hálfan bæinn og upp í Ísaksskóla (stofnanir eins og Barnaheill og umboðsmaður barna höfðu ekki verið stofnaðar í þá daga). Og allar götur síðan þá hefur Hlemmur einhvern veginn verið eins; það er alltaf sama lyktin þarna inni, alltaf sömu innréttingarnar og gott ef sama fólkið hefur ekki meira og minna haldið sig á Hlemmi öll þessi ár.

Um daginn kom það upp hjá mér að ég þurfti að bíða í um það bil 25 mínútur á Hlemmi eftir strætó og það helsta sem þessi staður hefur upp á að bjóða eru óþægilegir bekkir til að sitja á í félagsskap þolnustu drykkjumanna borgarinnar. Inn á Hlemmi er ein sjoppa og afgreiðslumaðurinn þar gerði ekki annað þann tíma sem ég var þarna inni en að munnhöggvast og rífast við drykkjumann sem ætlaði að kaupa sígarettur handa stelpu sem var ekki deginum eldri en 12 ára og hafði beðið hann um að kaupa fyrir sig pakka.

En þarf Hlemmur að vera svona? Ég er ekki viss.

Ef við setjum okkur nú í spor Andra Snæs og veltum því fyrir okkur hverjir séu möguleikarnir. Hvað ef núverandi ástand væri ekki til staðar, heldur eitthvað annað? Ef möguleikarnir fyrir Hlemm væru hugmynd getum við ekki sleppt þeirri hugmynd lausri og frelsað hana? Hvernig væri að rífa niður nokkra veggi og innréttingarnar og lofta aðeins út – kannski setja upp smart kaffihús og búa til skemmtilegt umhverfi? Væri það ekki tilvalið fyrir alla þá sem rúlla þarna í gegn, stoppa í kannski 10-15 mínútur og fá sér einn kaffibolla – kannski tvo ef maður lendir á skemmtilegu spjalli og ákveður að taka bara næsta strætó í staðinn. Það er nóg af venjulegu fólki sem fer um Hlemm á degi hverjum en í dag stendur það í flestum tilfellum fyrir utan Hlemm meðan það bíður eftir strætó því það vill ekki fara inn. Sem er kannski ákveðin kaldhæðni tilverunnar, því væntanlega var Hlemmur upphaflega hugsaður sem skjól fyrir þá sem þurfa að bíða eftir strætó.
|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Vá... langt síðan ég hef heyrt svona blogg-tuð sem ég er jafn mikið sammála!! Af hverju hefur enginn gert neitt í þessu? sennilega af því að þeir sem eru í aðstöðu til að gera e-ð keyra um í limmó og eru búnir að gleyma hvað Hlemmur er?

4:28 PM  
Anonymous Anonymous said...

Næst kemurðu bara í kaffi til vinkonu þinnar sem býr í næstum því á Hlemmi.
Mér finnst það eigi að vera sprautuherbergi á Hlemmi, fyrir lítilmagnann.
Halla

4:29 AM  

Post a Comment

<< Home