Wednesday, November 01, 2006

Útlendingarnir að komast á dagskrá

Umræðan um útlendinga hér á landi er að aukast. Á ýmsa vegu. Heimdallur stóð fyrir málfundi um þessi mál um daginn og í einu erindanna kom meðal annars fram að hugsanleg ástæða þess að þessi mál væru ekki á dagskrá stjórnvalda meira en raun ber vitni væri að umfjöllunin væri lítil í fjölmiðlum. Um leið og mál komast á dagskrá í fjölmiðlum fara stjórnvöld að veita þeim athygli. Þetta er held ég að mörgu leyti rétt mat en kannski líka sorgleg staðreynd. Fjölmiðlar veita málum sjaldnast athygli nema upp hafi komið vandamál og þegar um innflytjendur er að ræða er töluverð hætta á að þetta verði sett fram sem vandamál sem beinast að þeim sjálfum.

Það má reyndar segja að umfjöllun fjölmiðla um útlendinga hafi verið með mesta móti undanfarna daga. Það var greint frá því að BSRB teldi fjölgun útlendinga ekki heppilega þróun og svo birti Morgunblaðið langa grein um þessi mál, þar sem meðal annars kom fram að nemendur af erlendu bergi brotnir séu um 40% í sumum skólum landsins. Svo komu auðvitað fréttir af líkamsárásinni og meintri nauðgunartilraun á Cafe Victor sem ég minntist á í síðustu færslu.

Og það toppaði síðan eiginlega allt að sjá forsíðu Blaðsins í dag. Þar var forsíðufréttin á þá leið að tólf útlendingar hefðu verið kærðir fyrir líkamsárásir á „stuttum tíma. Þar af hefðu 10 manns verið kærðir í tenglum við málið sem kom upp á Victor, fyrir nokkru var svo suðurevrópskur maður fyrir nauðgun og annar af sama uppruna einning vegna meintrar nauðgunar. Þetta gerðist raunar á tveggja mánaða tímabili, sem blaðamaður telur stuttan tíma. Nú eru þetta að sjálfsögðu hræðilegir atburðir sem um ræðir, en þessi framsetning hjá Blaðinu er alveg ótrúlega villandi.

Þá fer nú ekki alveg saman heimildum Blaðsins og Morgunblaðsins um þetta mál. Blaðið talar um að 10 manns hafi verið kærðir en í Morgunblaðinu kemur fram að hjónin (sem urðu fyrir ofbeldinu á Victor) hafi lagt fram kæru á hendur fjórum mönnum - sem er ekki einungis sex útlendingum færra, heldur er líka talsverður munur á að leggja fram kæru hjá lögreglu og að lögreglan hafi gefið hana út. Í stuttu máli er hér verið að krydda framsetninguna verulega til að mála einhverja mynd af ofbeldishneigðum útlendingum, á sama tíma og fréttir berast t.d. um að þeim fjölgi verulega hér á landi. En hvenær er það tekið fram að afbrotamenn hér á landi, meintir eða raunverulegir, séu t.d. af Norðurlandi eða úr Keflavík? Það er ekki gert enda þætti fólki það ekki skipta máli. Það sem er alltaf villandi við svona framsetningu eins og hjá Blaðinu er að með því er máluð mynd af útlendingum út frá örfáum svörtum sauðum.

Í stíl við forsíðufréttina var svo viðhorfsgrein dagsins í Blaðinu, þar sem hæstaréttarlögmaðurinn Jón Magnússon, sem hefur nýverið leitt Nýtt afl inn í Frjálslynda flokkinn, skrifaði um Ísland fyrir Íslendinga. Þar fjallar hann um fjölgun innflytjenda hér á landi og segir svo meðal annars:

„Við Íslendingar höfum verið heppnir með að stór hluti fólks sem hingað hefur komið er harðduglegt fólk. Það breytir því ekki að við viljum hafa okkar velferðarsamfélag fyrir Íslendinga. Við viljum ekki missa algerlega stjórn á þróuninni. Ég vil ekki fá hingað fólk úr bræðralagi Múhameðs sem hefur sín eigin lög og virðir ekki lágmarksmannréttindi og misbýður konum. Ég vil ekki fá til Íslands hópa sem eru til vandræða allsstaðar í Evrópu.

Þetta er ekki ýkja málefnalegt upplegg. Svartir sauðir eru til allsstaðar, í öllum þjóðfélögum hvort sem þau eru vestræn og nútímaleg eða fjær okkur og njóta ekki sömu lífsgæða og við. Og þegar við erum farin að leika þann leik að ætla að velja og hafna eftir duttlungum og kreddum stjórnmálamanna, sem vilja t.d. alls ekki „bræðralag Múhameðserum við ekki á góðri leið.

Það er trúlega ýmislegt til í þeirri kenningu að málefni komist ekki á dagskrá fyrr en fjölmiðlar fara að fjalla um þau. En það er súrt í broti ef aukin umfjöllun fjölmiðla um málefni innflytjenda verði með þeim formerkjum að helstu fréttapunktarnir verði að það hafi útlendingur hafi verið aðili að líkamsárás eða að fjölgun útlendinga sé óheppileg þróun.
|

1 Comments:

Blogger Borgþór said...

já þetta er góð grein! Þetta er bara það sem er að gerast því miður í fjölmiðlaheiminum.. það þykir ekkert fréttnæmt lengur nema það sé nógu hræðilegt! æsifréttamennskan að komast á koppinn kannski... sem gerir það að verkum að fólk telur að útlendingar séu eitthvað hættulegra fólk en annað fólk, miðbærinn sé stórhættulegur á milli 23-08, að unglingar séu allir með byssu og selja dóp og að núna sé allt verra en það var í gær...

ömurlegt þróun

4:51 AM  

Post a Comment

<< Home