Monday, November 27, 2006

Pródúseruð iðrun

Ég er yfirleitt hrifinn af því þegar stjórnmálamenn eru tilbúnir að stíga fram og viðurkenna mistök sem þeir eða flokkurinn þeirra hafa gert. Það myndi örugglega skapa eðlilegri og uppbyggilegri umræðu ef pólitíkusar væru ekki jafnfastheldnir á að sín afstaða væri sú rétta og eins ef það væri ekki til marks um vindhanaskap og ótrúverðugleika að skipta öðru hvoru um stefnu eða segjast hafa gert mistök.

Þess vegna er það í sjálfu sér jákvætt að Framsóknarflokkurinn stigi fram og fari að gera upp sín mál í tengslum við Íraksstríðið. En tímasetningin á þessu útspili Jóns Sigurðssonar og aðstæður flokksins að öðru leyti eru þannig að maður getur ekki annað en efast um grundvöllinn fyrir yfirbótinni.

Ætli iðrunin hefði komið ef Framsóknarflokkurinn væri með 15-20% fylgi samkvæmt könnunum? Einhvern veginn efast ég um það. Ætli Jón Sigurðsson hefði stigið fram með þessum hætti ef hann hefði ekki verið gagnrýndr fyrir að hafa ekki fært neitt nýtt fram til Framsóknarflokksins þrátt fyrir að hafa verið formaður í nokkra mánuði og stutt sé í tvísýnar þingkosningar?

Ég fékk á tilfinninguna að þetta væri frekar úthugsað og pródúserað útspil hjá þeim. Miðað við ástand Framsóknarflokksins viriðst hann tilbúinn til að teygja sig mjög langt til að ná til kjósenda. Það er reyndar miður að hann endurskoði ekki í leiðinni afstöðu sína til landbúnaðarmála og hvort það megi ekki endurskoða eitthvað og stokka upp í styrktarkerfinu í landbúnaði? Það væri útspil sem mynda mælast vel fyrir hjá mörgum. Ég mundi ekki efast um þá iðrun.