Monday, November 27, 2006

Óskiljanlegir vinstri grænir

Ég skil ekki alveg vinstri græna. Þeir hafa talað gegn stóriðju og Kárahnjúkavirkjun af miklum krafti undanfarin ár. Þegar þeir eru spurðir hvað eigi að gera í staðinn hafa þeir yfirleitt svarað því til að byggja eigi á annars konar auðlindanýtingu og nefna gjarnan auðlindina sem aldrei gengur til þurrðar, þ.e. mannauð og hugvit. Flokkurinn hefur þannig tekið að sumu leyti upp málflutning Andra Snæs, sem bendir á að við sem þjóð eigum alltaf ákveðið val um hvaða auðlindir við viljum nýta og hvort það sé ekki skynsamlegra að reyna að virkja sköpunarkraftinn í fólki til góðra verka og atvinnusköpunar en að ráðast í stórtækar stóriðjuaðgerðir með tilheyrandi umhverfisspjöllum.

Gott og vel, það er ýmislegt til í þessu. En samt er frekar holur hljómur í þessum málflutningi þegar á reynir. Á dögunum var kynnt skýrsla nefndar um alþjóðlega fjármálastarfsemi hér á landi og hvað við gætum gert til að laða hingað erlend fyrirtæki og fjármálamenn og þar með auka verulega skatttekjur ríkissjóðs. Þessi hugmynd er finnst mér alveg bráðsnjöll. Hún felur í sér að við nýtum hugvitið og mannauðinn í tengslum við fjármálastarfsemi enn meira en gert er núna en það mun ekki svo mikið sem eitt blaktandi strá þurfa að fara undir vatn við það að fjármálafyrirtæki ákveði að koma hingað til landsins. Fullt af vel launuðum störfum í fjármálageiranum myndu hins vegar skapast hér á landi.

En hver eru viðbrögð vinstri grænna við þessum hugmyndum? Nánast engin. Enginn steig fram og fagnaði þessu. Í úttekt sem Viðskiptablaðið birti um daginn á þessum tillögum var leitað viðbragða forystumanna flokkanna og tóku þeir allir vel í þetta nema Ögmundur Jónasson, sem var mótfallinn þessum hugmyndum. Fannst þær ekki góðar.

Vinstri grænir vilja sum sé ekki stóriðju, heldur vilja þeir byggja á mannauð. Samt styðja þeir ekki hugmyndir um að nýta mannauð í tengslum við fjármálastarfsemi hér á landi. Má þá bara nýta mannauð á ákveðnum sviðum? Fá kjósendur kannski að heyra það við tækifæri hvaða atvinnugreinar þóknast vinstri grænum og hverjar ekki?

Ætli þetta séu leifar af gamalli andstöðu við erlent fjármagn og kapítalisma? Af hverju í ósköpunum má ekki reyna að laða að fyrirtæki og fjármálamenn til að hafa skattalegt heimilisfesti hér á landi og tryggja ríkinu þannig tekjur sem það fengi ekki annars? Hvað er óréttlátt eða rangt við það? Þetta eru tekjur sem væri hægt að nota í þágu góðra mála, t.d. í velferðarkerfið eða menntamál eða til að lækka skatta og álögur á almenning.

En nei... þessi gerð mannauðs er ekki vinstri grænum þóknanleg!
|

4 Comments:

Blogger dora wonder said...

heh, þú verður nú að vera opinn fyrir því að það eru ekki allir jafn hrifnir af þessum richard branson týpum ;-)
annars voru það talsverð vonbrigði að lesa að bandarískir lögmenn séu almennt ekki eins og danny crane, það þykir mér miður. hljómaði annars eins og skemmtilegur fyrirlestur.

7:26 AM  
Blogger Árni said...

Þú verður að fara að taka Richard Branson í sátt

8:33 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég tek undir það að stefna vinstri grænna er ansi vafasöm. Sérstaklega fannst mér slakt þegar Ögmundur talaði um að þotuliðinu í íslenska fjármálaheiminum væri fórnandi fyrir réttlátara samfélag. Fáránlegt að talsmaður stjórnmálaafls hér á landi skuli láta svona út úr sér.
.
.
.
Ég er þó þeirrar skoðunar að við verðum að fara varlega í skattaundirboð á alþjóðavettvangi. Fyrirtæki eiga að greiða skatta sína í þeim löndum þar sem gróðinn verður til. Að öðrum kosti er um vissa tegund af arðráni að ræða.

Það að bjóða hér upp á ofurlága skatta getur hagnast okkur vel en öðrum fátækum þjóðum illa, jafnvel þó svo að stærsti hluti gróðans verði til hjá þeim síðarnefndu.

9:53 AM  
Blogger Atli said...

Ég rekst alltaf inn á þetta blogg með reglulegu millibili og þykir það yfirleitt áhugavert og ferskt.

Aldrei myndi ég nenna að blogga svona mikið um pólitík, en ég held að það sé gott að einhver taki það að sér.

12:39 PM  

Post a Comment

<< Home