Friday, December 15, 2006

Björn Ingi og Dagur

Björn Ingi og Dagur B. mættust í Kastljósi í fyrradag til að ræða um umdeildar ráðningar á vegum Framsóknarflokksins í borgarkerfinu. Það virðist allt loga í net- og bloggheimum eftir þetta viðtal, jafnvel svo að dómsmálaráðherrann sjálfur lagði orð í belg. Björn Ingi gekk hart fram í viðtalinu og sneri ásökunum í sinn garð upp í ásakanir á hendur Helga Seljan fyrir að hafa verið ráðinn í Kastljósið án auglýsingar og í garð Dags með því að gefa í skyn að það að hann kenni í Háskólanum í Reykjavík hafi eitthvað með það að gera að hann hafi sem formaður skipulagsráðs úthlutað skólanum lóð í Vatnsmýrinni.

Á einhverjum tímapunkti fór viðtalið að snúast upp í vitleysu, þar sem allir töluðu í einu.

Björn Ingi hafði verið fenginn í þáttinn til að svara fyrir ráðningu Óskars Bergssonar sem verktaka hjá Faxaflóahöfnum en hann fær 390 þúsund krónur á mánuði fyrir 15 tíma vinnuviku. Óskar er formaður framkvæmdaráðs borgarinnar. Þar að auki hafa verið ráðin á vegum Faxaflóahafna þau Pétur Gunnarsson, spindoktor flokksins, til að sjá um uppfærslu á heimasíðu Faxaflóahafna, Ásrún Kristjánsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, til að sjá um hönnunarverkefni á vegum Faxaflóahafna og loks Ragnar Hreinsson, fyrrv. kosningastjóri Framsóknarflokksins, til að sjá um verkefnið Kvikmyndaborgin Reykjavík.

Ekki ber á öðru en að Framsóknarmenn hafi verið duglegir að koma sínu fólki að eftir kosningar. Tímabundnar ráðningar eru þess eðlis að þar eru störfin ekki auglýst og því er oft ráðinn einhver sem pólitíkusarnir treysta“. Reyndar segir Pétur Gunnarsson sjálfur um þetta á bloggsíðu sinni:

Ekki mun ég halda því fram að þetta verkefni mitt hafi ekkert með það að gera að ég er vinur Björns Inga Hrafnssonar, stjórnarformanns fyrirtækisins, og pólitískur samherji hans.

En þróun mála í þættinum og viðbrögðin í kjölfarið hafa snúist um allt annað en ráðningarnar sjálfar. Þær hafa snúist um Björn Inga sjálfan, þ.e. hvernig hans frammistaða hafi verið í þættinum. Á bloggunum og í kommentunum eru menn að metast um hvort Björn Ingi sé spilltur eða töff, hvort hann hafi verið dónalegur eða fastur fyrir eða hvort Dagur B. hafi verið jarðaður. Þannig að áherslan fer frá ráðningunum og yfir á Björn Inga sjálfan.

Sniðugt?
|

2 Comments:

Blogger Unknown said...

Sannarlega ekki!

8:59 AM  
Anonymous Anonymous said...

Það er lítið skrítið við það að talið berist frá ráðningunum yfir á persónu Björns Inga, því hún er það sem situr eftir í huga fólks eftir að hafa horft á þáttinn.

Það er miður skemmtilegt hvað pólitísk umræða er oft á ómálefnalegum nótum, en það er hins vegar vel skiljanlegt miðað við það hversu ómálefnalegir pólitíkusarnir eru oft sjálfir, og fer að mínu viti Björn Ingi þar einatt fremstur í flokki og breytti í engu útaf þeirri venju í þessum þætti. Að auki er sú sandkassapólitík sem stunduð er hérna á Íslandi iðulega því marki brennd að menn kasta skít í hvor aðra.

Skynsamlegt eða óskynsamlegt? Umræðan fer þangað sem athygli fólks beinist að.

10:08 AM  

Post a Comment

<< Home