Wednesday, December 06, 2006

Mogginn

Það hefur margt verið sagt um dagblaðið sem landsmenn elska og hata, Morgunblaðið. En eitt er víst, að lestur blaðsins hefur dalað nánast stöðugt undanfarin ár. Miðað við nýja fjölmiðlakönnun Gallup er meðallestur blaðsins 46% á meðan Fréttablaðið er með um 66% lestur. Nú er komin ákveðin reynsla á breytingarnar sem gerðar voru á blaðinu í sumar og svo virðist sem þær skili ekki miklu en tilgangurinn með þeim var að gera blaðið aðgengilegra og láta það höfða til fleirri en áður. Þ.e. að auka lestur þess.

Kannski eru möguleikar svona áskriftarblaðs einfaldlega ekki meiri en raun ber vitni þegar það keppir við fríblöð, eins og Morgunblaðið gerir. Blaðið mun aldrei ná sömu útbreiðslu og dreifingu. Það er að mörgu leyti leiðinlegt ef satt reynist. Ég er reyndar ekki hlutlaus um þetta, hafandi unnið á Morgunblaðinu, en blaðið býður upp á efni og skrif sem fríblöðin munu sennilega aldrei geta leyft sér og fjölmiðlaflóran væri ekki jafnlitrík án áskriftarblaðs eins og Moggans.

En það kann ýmislegt fleira að spila inn í. Til dæmis efnistök og nálgun blaðsins og ritstjórnarinnar og hvort lesendur fái ekki stundum nóg af því að lesa blað sem lítur á sig sem sjálfskipaða samvisku þjóðarinnar. Á vefsíðu Steingríms Sævarrs var á dögunum birt lesendabréf um raunir Morgnublaðsins þar sem m.a. sagði:

Lesendur blaðsins og þeir sem fylgjast með þjóðmálaumræðunni eru orðnir þreyttir á sömu tuggunni sem japlast út úr bolanum Styrmi. Þess utan er bolinn afar dýr á fóðrun. Leiðarar, efnistök og ritstíll sá er frá Styrmi og hans undirsátum kemur er satt að segja afar fráhrindandi. Af efnistökum má dæma að Morgunblaðið viti alltaf eitthvað meira um hin og þessi mál en upp er látið (sérkennileg staða fyrir fjölmiðil sem á að flytja fréttir). Stíllinn er alltaf eins og í kennslustund þar sem lesendur eru líkt og hálfgapandi nemendur í kennslustofu á öndverðri 20 öld. Við töfluna sveiflar Styrmir prikinu sínu og kemur nemendum sínum sannin um eðli hlutanna. Alltaf er talað niður til lesandans eins og frá einhverju óskilgreindu hásæti í skýjunum.

Sigurjón M. Egilsson ritstjóri Blaðsins skrifar svo á ekki ósvipuðum nótum um Moggann í leiðara dagsins:

Slæm staða Morgunblaðsins er eftirtektarverð. Ekki er hægt að kenna samkeppninni við fríblöð alfarið um. Starfsfólk og stjórnendur Morgunblaðsins verða að horfa á eigin verk og vega og meta hvað er verið að gera rangt. Kannski er skoðanaþrunginn fjölmiðill barn síns tíma. Kannski er það ekki hlutverk fjölmiðla að keppast við að hafa sem mest áhrif á skoðanir fólks og gerðir. Má vera að Morgunblaðið þurfi að taka tillit til breytts tíðaranda.
|

2 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Breytir ekki því að ég gerðist áskrifandi í vikunni.
Það kemur sá tími lífi allra ungra mann og allt það...

1:41 PM  
Anonymous Anonymous said...

rekinn?

5:49 PM  

Post a Comment

<< Home